Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar.

582. mál
[18:40]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta góða innlegg og gott að það komi hér fram að verið er að lækka þetta tímabil, eigum við að segja líftíma styrksins, ef þannig má orða það. Ef tækjabúnaður bilar eftir 15 ár þá er hægt að sækja um aftur til þess að endurnýja hann. Ég held að hv. þm. Eyjólfur Ármannsson hafi nefnt það sérstaklega að kannski væri betra að stytta þetta niður í tíu ár og það er að sjálfsögðu jákvætt. En þetta var niðurstaðan og er betra en 20 ár, og gott að þetta kom fram vegna þess að ég þekki dæmi þess, eins og ég sagði hér áðan í ræðu minni, að þessi búnaður hafi bilað og það getur alltaf gerst. Þegar viðkomandi er búinn að setja upp þennan búnað, varmadælur og annað slíkt, þá á hann ekki lengur rétt á niðurgreiðslu á raforku, kyndingu og kostnaði við að kynda með rafmagni. Þá er styrkurinn, eingreiðslan, eins og kemur fram í frumvarpinu, notaður til að kaupa tækjabúnaðinn og þar við situr. Hins vegar felst náttúrulega í því mikill sparnaður og orkukostnaður heimilisins getur lækkað um allt að helming, sem er heilmikið, vegna þess að í mörgum tilfellum er fólk að borga allt upp í 50.000 kr. á mánuði og rúmlega það til að kynda hús á köldum svæðum, sem er heilmikill kostnaður. En ég er að sama skapi eins og hv. þingmaður, og við erum mjög samstiga í þeim efnum, mjög áhugasamur um hitaveituframkvæmdir almennt. Þess vegna hef ég lagt áherslu á það í minni ræðu hér að við megum ekki slaka á í þeim efnum að leita að heitu vatni á köldum svæðum.