Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar.

582. mál
[18:42]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu sína. Honum varð tíðrætt um jarðhitaleit og ég er algerlega sammála um að það er alveg gríðarlega mikilvægt fyrir köld svæði ef þar skyldi finnast jarðhiti, það þarf að leita þar í þaula vegna þeirra lífsgæða sem við höfum af jarðhitanum. Ég vil meina það, eftir að hafa búið erlendis, að lífskjör á Íslandi væru mun lakari ef við hefðum ekki jarðhitann. Ég þekki það eftir að hafa búið erlendis hvað upphitunarkostnaður húsa er gríðarlega hár, eins og á Norðurlöndum. Hér í Reykjavík, þar sem við búum við jarðhita, eru sundlaugar út um allt og það er tiltölulega ódýrt að hita upp húsin. Það væri fróðlegt að vita hversu mikið þetta bætir lífskjör okkar og því er jarðhitaleit á köldum svæðum alveg ótrúlega mikilvæg.

Í 16. gr. laga um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar kemur fram, með leyfi forseta:

„Ráðherra er heimilt að ákveða að sérstakt jarðhitaleitarátak á köldum svæðum fái allt að 5% af árlegri fjárveitingu til niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði og nýrra hitaveitna. Beiðnir um styrki skulu sendar ráðuneytinu ásamt greinargerð um fyrirhugaða jarðhitaleit.“

Hérna er fjárveiting til jarðhitaleitar í lögum um niðurgreiðslur, væntanlega til að spara niðurgreiðslurnar, eins og við erum að gera núna með varmadælunum. Telur hv. þingmaður ekki rétt að það væri raunverulega hægt að breyta þessu ákvæði um 5% af árlegri fjárveitingu til niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði, þar sem kveðið yrði á um að ráðherra væri heimilt að ákveða að sérstakt átak, jarðhitaleitarátak á köldum svæðum, fái hærri prósentu en þetta vegna sparnaðar og ekki síst (Forseti hringir.) vegna orkuskiptanna og alls sem stendur um græna hagkerfið og loftslagsbreytingar í stjórnarsáttmálanum?