Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar.

582. mál
[19:47]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Þessi breytingartillaga snýr að niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar sem er mjög mikilvægt fyrir landsbyggðina. Í frumvarpinu segir að ríkið ætli að styrkja um allt að helming kostnaðar eða sem jafngildir 1 millj. kr. Breytingartillagan felur í sér að styrkurinn verði þrír fjórðu hlutar kostnaðar og allt að 1,5 millj. kr. Hver er ástæðan fyrir því? Jú, með þessum aðgerðum er ríkið bæði að spara pening og auka tekjur sínar. Hvernig er það að spara pening? Jú, með því að útgjöld ríkisins vegna niðurgreiðslna minnka með þessum orkusparandi aðgerðum, einnig með því að þessar orkusparandi aðgerðir fela í sér að 110 gígavattstundir losna fyrir aðra notkun sem samsvarar raforkunotkun 50.000 rafbíla. Þessi raforkunotkun færi úr 11% virðisaukaskattsþrepi í 24% virðisaukaskattsþrep. (Forseti hringir.) Það eykur tekjur ríkissjóðs. Ef ríkisstjórnin meinar eitthvað með orkuskiptum (Forseti hringir.) og grænni orku þá er kominn tími til þess að hún setji peningana til orkuskipta á landsbyggðinni.