Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks 2022--2025.

415. mál
[22:02]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og ég er alveg sammála því, að sjálfsögðu þurfa að vera verklagsreglur og þær þurfa að sjálfsögðu ekki að vera meitlaðar í stein heldur eitthvað sem þróast eftir því sem skilningur og rannsóknir og annað þróast á þessu sviði eins og á öllum öðrum sviðum læknisfræðinnar.

En það hefur einmitt komið hérna fram í umræðu um heilbrigðiskerfið að það sé mikil starfsmannavelta og við höfum líka séð þetta á bráðamóttöku og fleiri stöðum. Við verðum bara að átta okkur á því að álagið á starfsfólkið á móti því sem þau fá borgað fyrir sína vinnu er greinilega ekki að ganga upp. Það þýðir bara að við þurfum að skoða hvernig við getum t.d. tryggt að fólk fái mannsæmandi laun án þess að þurfa að vinna nótt og dag. Það var oft tekið dæmi um það þegar fólk fór að flýja land, sérstaklega fólk úr heilbrigðisstéttunum, eftir hrunið, þá fór heilbrigðisstarfsfólk til Noregs og hótel Noregs og fékk svipuð laun eftir skatta eins og það fékk hér heima nema munurinn var sá að í Noregi unnu þau eina vakt, sem sagt annaðhvort dagvakt eða kvöldvakt eða næturvakt, en ekki tvær og tvær vaktir eða alls konar yfirvinnu til að ná upp í sömu upphæð. Ég vona að það sé hlutur sem hæstv. heilbrigðisráðherra er að skoða, hvernig við getum tryggt mönnun og fengið eitthvað af þessu fólki til baka sem er búið að flýja.