Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  10. júní 2022.

fjármálamarkaðir.

532. mál
[00:05]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir hönd 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum á fjármálamarkaði (innleiðing o.fl.). Helstu atriði frumvarpsins eru að lagt er til að ákvæði sex Evrópugerða á fjármálamarkaði verði tekin upp í íslenskan rétt og eru í því skyni með frumvarpinu lagðar til breytingar á lögum um markaði fyrir fjármálagerninga nr. 115/2021, lögum um aðgerðir gegn markaðssvikum nr. 60/2021, lögum um lýsingu verðbréfa sem boðin eru í almennu útboði eða tekin til viðskipta á skipulegum markaði nr. 14/2020, lögum um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði nr. 24/2017, lögum um lánshæfismatsfyrirtæki nr. 50/2017, og lögum um yfirtöku nr. 108/2007, auk afleiddra breytinga á þrennum öðrum lögum.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund gesti og umsagnir bárust. Greint er frá því í nefndaráliti.

Fyrsti minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar leggur til breytingar á frumvarpinu. Í fyrsta lagi er lögð til breyting er varðar heimild Seðlabanka Íslands til eftirlits með útibúum erlendra aðila til samræmis við athugasemd í umsögn Seðlabankans. Í öðru lagi er lögð til breyting er varðar lögfestingu reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins að því er varðar aðsetur Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar. Höfuðstöðvar stofnunarinnar færast frá London til Parísar vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.

Aðrar breytingartillögur 1. minni hluta eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif. Vísast að öðru leyti til ítarlegri umfjöllunar um breytingartillögur í nefndaráliti.

Markmið með setningu reglugerðarinnar er að liðka fyrir útgáfu og skráningu fjármálagerninga á svokallaðan vaxtarmarkað fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Tilgangur vaxtarmarkaða er að gera aðgengilegra og meira aðlaðandi fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki að nota fjármálamarkaði til að sækja sér fjármagn.

Reglugerð ESB frá 2019/2115 er í fyrsta lagi ætlað að draga úr kostnaði og formkröfum til vaxtarmarkaða á sama tíma og gætt er að heilleika markaðarins og fjárfestavernd. Í öðru lagi er tilgangur hennar að skráð félög á vaxtarmörkuðum verði seljanlegri og þar af leiðandi verði slíkir markaðir meira aðlaðandi, m.a. fyrir fjárfesta og útgefendur. Í þriðja lagi miðar reglugerðin að því að stuðla að skráningu markaðstorga fjármálagerninga sem vaxtarmarkaða og auka viðskipti á slíkum mörkuðum á hverju markaðssvæði sem og yfir landamæri. Vonir standa til að samþykkt frumvarpsins leiði til bættra fjármögnunarmöguleika lítilla og meðalstórra fyrirtækja í gegnum vaxtarmarkaði fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki.

Að framansögðu virtu leggur 1. minni hluti til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir.

Undir álit 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar rita auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Ágúst Bjarni Garðarsson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir.