Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 88. fundur,  27. mars 2023.

lyfjakostnaður og tímabil lyfjakaupa.

674. mál
[17:18]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf):

Virðulegur forseti. Greiðsluþök eru allt of há í greiðslukerfi lyfja, sérstaklega hjá eldri borgurum, öryrkjum og þeim sem eru á lægstu launum. Upphafskostnaðurinn hjá mörgum öryrkjum og öldruðum er allt of mikill og síðan er töluvert um lyf sem eru utan kerfa.

Ég vil því spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra í fyrsta lagi: Hefur ráðherra gögn um það hvort fækkun hafi orðið á því að fólk leysi út lyfjaskammta á áætluðum tíma þegar nýtt tímabil lyfjakaupa hefst og það greiðir fullt verð, allt upp í 22.000 kr., fyrir lyfjaskammt?

Í öðru lagi: Hefur komið til skoðunar að breyta þrepakerfinu eða reglum um tímabil lyfjakaupa svo að það hendi ekki fjölskyldur að þurfa að greiða fullt verð til að leysa út lyf allra meðlima í sama mánuði? Kæmi t.d. til greina að kveða á um hámark á greiðsluþátttöku einnar fjölskyldu í hverjum mánuði?

Í þriðja lagi: Hvers vegna er ekki hægt að dreifa kostnaðinum betur í ljósi þess að t.d. hjón með tvö börn, og öll hefja nýtt tímabil lyfjakaupa í sama mánuði, geta þurft að greiða úr eigin vasa 62.000 kr. án greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga eða jafnvel meira, enda lyfjaverð sífellt að hækka? Í þessu samhengi má benda á að árið 2013 var það 24.000 kr. fyrir einstaklinga og 69.000 hámarkskostnaður. Þetta hefur lækkað pínulítið en ég spyr hæstv. ráðherra: Telur hann að þetta sé nóg? Hjá börnum og eldri borgurum og öryrkjum voru þetta 16.000 árið 2013 og 48.000 hámark en núna eru þetta 11.000 og 41.000 kr. hámark. Við þurfum að átta okkur á því að ef við erum að tala um einstæða móður með þrjú, fjögur börn þá er það verulegur kostnaður ef það hittist svoleiðis á að allir í fjölskyldunni eru á sama greiðslutímabili, sem er kannski ekkert líklegt en það getur átt sér stað. Og í því árferði sem er núna, það er verðbólga og húsaleiga og annað hefur hækkað ótrúlega mikið þannig að fólk á varla fyrir neinu orðið öðru en húsaleigu og maður þakkar fyrir að eiga fyrir mat, hvort það sé ekki tími til að gera eitthvað þannig að þessi hópur þurfi ekki að borga fyrir lyf og a.m.k. að tryggja það að öryrkjar og þeir sem verst eru staddir geti leyst út lyfin sín. Það hlýtur líka að vera alvarlegt mál ef þeir geta það ekki.