Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 88. fundur,  27. mars 2023.

bið eftir þjónustu transteyma.

697. mál
[17:45]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Ég ætlaði bara að þakka fyrir þessa umræðu og svör ráðherra. Ég veit að hann er sannarlega með margt á sinni könnu en þetta skiptir alveg gríðarlega miklu máli og ég þakka málshefjanda líka fyrir að minna á þessi mál. Það er ekki nóg að setja lög, það þarf getu til að fylgja þeim eftir. Mig langar í því tilfelli að nefna hér þingmannamál sem varðar bælingarmeðferðir á hinsegin fólki, sem ég lagði fram með stuðningi fjölmargra á þinginu, mál um breytingu á hegningarlögum sem miðar að því að setja undir hegningarlög ákvæði við því að neyða, blekkja eða hóta fólki til að gangast undir meðferðir í þeim tilgangi að bæla eða breyta kynhneigð. Það er sérstaklega mikilvægt að við klárum þetta mál í vetur í ljósi stöðunnar eins og hún er. Við erum með lög sem eiga að vernda þennan hóp fólks, hinsegin fólk. Biðlistar lengjast þar eins og víða, allir eru að reyna að gera sitt besta en það er þessi blettur á lögunum. Við þurfum að tryggja hag fólks allan tímann. (Forseti hringir.) Það er sérstaklega áríðandi í ljósi þess að biðlistar eru svona langir og fara vaxandi. Því langaði mig bara til að nota tækifærið hér og hnykkja á því að við þurfum að sigla þessum lögum í höfn.