Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 88. fundur,  27. mars 2023.

bið eftir þjónustu transteyma.

697. mál
[17:46]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Andrés Ingi Jónsson) (P):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra fór ágætlega yfir það hvernig eftirspurn eftir þjónustu transteymanna hefði aukist hratt á síðustu árum. Ég held að þetta sé sennilega einhver besti dómurinn sem við eigum yfir lögum um kynrænt sjálfræði. Alveg eins og blómin springa út og dafna þegar þau fá sólarljós og súrefni, þá spratt fram fólk sem gat þarna sótt sér þjónustu og notið þeirrar virðingar sem fylgdi fullu lagalegu jafnrétti. Þess vegna skiptir svo gríðarlega miklu máli að innleiðingin sé eins og best verður á kosið, vegna þess að þótt fjöldinn hafi aukist hratt þá er þetta enginn fjöldi sem heitið getur. Þetta er ekki það stór hópur að hann sligi nokkurt kerfi og því hvet ég ráðherra til að leggjast vel yfir það hvernig hægt sé að bæði þurrka upp biðlistann og síðan biðlistann eftir biðlistanum. Það mun margborga sig í lífsgæðum þeirra einstaklinga sem um ræðir. Síðan, ef ráðherrann þarf að færa rök gagnvart reiknistokkunum uppi í ráðuneyti þá elur þessi bið af sér ný vandamál hjá fólki sem tekur kannski lengri tíma að ná utan um. Því mun kostnaður kerfisins í heild væntanlega lækka við það að veita þessu fólki þjónustu fyrr og betur.

Svo datt mér í hug, þar sem ég sat og hlustaði á umræðurnar og svör ráðherra, hvort við þyrftum að stíga eitthvert skref til framtíðar. Við eigum lagaramma frá 2019 sem er ekki að fullu innleiddur og ekki er búið að gera allt sem þarf að gera. Kannski er kominn tími til að endurskoða hann og gá hvort við höfum smíðað skipið í takt við þá ferð sem við þurfum að sigla því, hvort við séum t.d. að dreifa kröftum of víða með því að vera með tvö transteymi, (Forseti hringir.) hvort þetta sé rétt staðsett innan um bráðaþjónustu. (Forseti hringir.) Ég vildi kannski leggja til að ráðherrann ætti samtal við hagsmunasamtök hinsegin fólks og Trans Ísland til að sjá hvort ástæða væri til að endurskoða þessi mál samhliða því að hann lagaði þau.