Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 88. fundur,  27. mars 2023.

bið eftir þjónustu transteyma.

697. mál
[17:49]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég ítreka þakkir fyrir þessa fyrirspurn. Talandi um bið, og bið eftir bið, þá erum við líka búin að bíða allt of lengi með þessa góðu fyrirspurn. Það er mikil þörf á því að halda þessu gangandi hér í þingsal. Hv. þingmaður leggur til að ég eigi í góðu samstarfi við Samtökin — það er líka allt of langt síðan ég hitti þau síðast og það er nú einhvern veginn veruleikinn í þessu. En það er rétt, að við þurfum að halda þessu við. Ég hef aðeins rætt þetta við spítalann og við erum að horfa til heilsugæslunnar í stuðningi við að draga úr bið eftir biðlista og förum svo í biðlistann sjálfan. En heilsugæslan gegnir veigamiklu hlutverki þegar kemur að heildrænni þjónustu og sálfræðimeðferð og við þurfum einhvern veginn að nota allt kerfið okkar. Ef þörf er á meiri eða sérhæfðari geðheilbrigðisþjónustu þá þurfum við á einhvern hátt að horfa til allra úrræða. Þetta er hins vegar verkefni sem hefur einhvern veginn kjarnast — ég tek undir það sem hv. þingmenn Hanna Katrín Friðriksson og Steinunn Þóra Árnadóttir komu inn á varðandi lögin — mjög vel í stuðningnum við fólk til að leita sér þjónustu. Það er auðvitað jákvæðast í þessu og því eigum við að horfa afmarkað á þetta, ræða við hlutaðeigandi aðila og reyna að leggja líka sérstaka áherslu á að vinna niður þennan biðlista. Hann slær mann vægast sagt mjög illa og ég heiti því hér og nú að gera það sem í mínu valdi stendur til þess. Ég þakka að öðru leyti fyrir þessa góðu umræðu.