Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 88. fundur,  27. mars 2023.

förgun dýraafurða og dýrahræja.

441. mál
[18:22]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Dýrahræ eru skilgreind sem landbúnaðarúrgangur samkvæmt reglugerð um urðun úrgangs. Samkvæmt 7. gr. reglugerðarinnar er einungis heimilt að urða dýrahræ, smitandi sláturúrgang og annan smitandi landbúnaðarúrgang að fengnu leyfi Umhverfisstofnunar og að höfðu samtali við héraðsdýralækni. Samkvæmt núverandi lögum er aðeins heimilt að urða hluta af dýrum og brenna skal svokallaða áhættuvefi, t.d. heila og mænu. En staðan er þannig að núverandi lög og reglur ganga hreinlega ekki upp sökum þess að úrræðin vantar. Það er einungis einn brennsluofn til staðar hér á landi til að brenna hræ og annar hann ekki þörf. Söfnun hræja og förgun er bæði mjög dýr og erfið í framkvæmd, m.a. vegna varnarlína. Nokkur sveitarfélög hér á landi hafa boðið upp á þá þjónustu að safna saman dýrahræjum af sjálfdauðum dýrum og dýrum sem lógað er vegna sjúkdóma og sláturúrgangs sem fellur til og koma til förgunar en það er varla í boði lengur.

Úrgangsmál eru á ábyrgð sveitarfélaganna og falla undir lögbundið hlutverk sveitarfélaganna, þ.e. söfnun og meðferð úrgangs og skolps. Segja má að dýrahræ sé úrgangsflokkur sem snýr minna að loftslagsmálum og auðlindanýtingu heldur fremur að sjónarmiðum um sóttvarnir og hollustuhætti. Þetta getur skapað erfiðleika fyrir bændur, t.d. í mjólkurframleiðslu, sem þurfa að gefa upplýsingar um hvernig þeir losa sig við dýrahræ til að fá útgefið starfsleyfi.

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvaða reglur gilda um förgun dýrahræja og sláturúrgangs hér á landi? Hvaða úrræði eru til staðar í landinu til förgunar dýrahræja eða sláturúrgangs? Hvaða vinna er í gangi núna um þessi mál hér á landi?