153. löggjafarþing — 88. fundur,  27. mars 2023.

förgun dýraafurða og dýrahræja.

441. mál
[18:24]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur fyrir fyrirspurnina. Þetta er mál sem varðar okkur öll og sérstaklega þá sem starfa í landbúnaði og þetta verkefni sem hv. þingmaður vísar til hefur svo sannarlega ekki farið fram hjá þeim sem hér stendur.

Dýrahræ og sláturúrgangur falla undir hugtakið aukaafurðir úr dýrum. Hugtakið tekur til heilla skrokka eða skrokkhluta dýra, afurða úr dýraríkinu eða annarra afurða fenginna af eða úr dýrum, sem ekki eru ætlaðar til manneldis. Í stuttu máli má segja að aukaafurðir úr dýrum séu þeir hlutar dýra sem ekki eru notaðir í matvæli, stundum talað um sem dýraleifar. Um aukaafurðir úr dýrum gilda lög nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, sem og reglugerð nr. 674/2017, um heilbrigðisreglur að því er varðar aukaafurðir úr dýrum og afleiddar afurðir sem ekki eru ætlaðar til manneldis, sem innleiðir reglugerð Evrópusambandsins sama heitis, reglugerð EB nr. 1069/2009. Sú löggjöf er á málefnasviði matvælaráðuneytisins og ekki er sjálfgefið að aukaafurðir úr dýrum teljist til úrgangs. Vonandi mun það líka minnka.

Aukaafurðir úr dýrum eru flokkaðar í þrjá áhættuflokka og er það sú flokkun sem stýrir því hvernig meðhöndla beri afurðina sem og hvernig hana megi nota síðar. Þannig getur verið heimilt að nýta sumar aukaafurðir, svo sem í framleiðslu á dýrafóðri, mjöli eða moltu. Öðrum aukaafurðum getur verið skylt að farga og þegar aukaafurðir úr dýrum teljast til úrgangs gilda um þær ákvæði laga um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003, sem heyrir undir málefnasvið umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. Meginreglan er sú að aukaafurðir úr dýrum falla undir lög um meðhöndlun úrgangs ef þær fara til brennslu, urðunar eða notkunar í lífgas- eða myltingarstöð.

Hv. þingmaður spyr hvaða úrræði séu til staðar í landinu til förgunar dýrahræja eða sláturúrgangs. Þegar kemur að förgun dýrahræja og sláturúrgangs þá ber að farga áhættuvefjum, sjálfdauðum dýrum og dýrahræjum frá bændum. Áhættuvefir geta fallið til við venjubundna slátrun eða þegar upp koma sjúkdómar og fella þarf búfénað. Sumir sláturleyfishafar hafa leyst förgun áhættuvefja frá eigin starfsemi með því að setja upp brennsluofna við afurðastöðvar. Í öðrum tilvikum hafa áhættuvefir frá sláturleyfishöfum verið fluttir til brennslu í Kölku sorpeyðingarstöð í Reykjanesbæ.

Hvað varðar sjálfdauð dýr og önnur dýrahræ frá bændum, úrgang frá heimaslátrun og dýrahræ og annan úrgang sem fellur til þegar upp koma smitsjúkdómar og grípa þarf til niðurskurðar, þá hefur almennt tíðkast að farga slíkum aukaafurðum með brennslu í Kölku sorpeyðingarstöð eða með urðun á viðurkenndum urðunarstöðum.

Síðan spyr hv. þingmaður hvort ráðuneytið vinni að frekari lausnum varðandi urðun eða brennslu dýrahræja eða sláturúrgangs. Ef svo er, hvenær er miðað við að þeirri vinnu sé lokið?

Virðulegi forseti. Ljóst er að það er aðkallandi verkefni að byggja upp innviði til brennslu dýraleifa svo tryggja megi fullnægjandi förgun sjálfdauðra dýra og annarra dýrahræja frá lögbýlum, sem og úrgangs frá heimaslátrun. Í því samhengi er mikilvægt að hafa í huga að það er lögbundið hlutverk sveitarstjórna að sjá um að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem fellur til í viðkomandi sveitarfélagi, sbr. 8. gr. laga um meðhöndlun úrgangs. Það eru því sveitarstjórnir sem fara að meginstefnu til með ákvörðunarvald þegar kemur að uppbyggingu brennslulausna. Að mati umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra er þó mikilvægt að áhugasamir einkaaðilar og ríkið komi þar einnig að.

Árið 2020 lét ráðuneytið gera greiningu á þörf sorpbrennslustöðva á Íslandi þar sem m.a. voru ræddar þrjár leiðir varðandi útfærslu á sorpbrennslu: ein stór sorpbrennslustöð á Suðvesturlandi með brennslugetu 90–100 þús. tonn á ári), fimm minni sorpbrennslustöðvar dreifðar um landið og útflutningur til brennslu. Í fyrra unnu Sorpa bs., Kalka sorpeyðingarstöð sf., Sorpurðun Vesturlands hf., og Sorpstöð Suðurlands bs., með stuðningi ráðuneytisins, forverkefni til undirbúnings framtíðarlausna til meðhöndlunar á brennanlegum úrgangi í stað urðunar. Niðurstöður verkefnisins voru birtar í desember 2021 og eiga þær að nýtast sem lykilgagn við ákvörðunartöku varðandi uppbyggingu innviða til brennslu. Vinna er hafin hjá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Sorpu bs., í samvinnu við umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, við að móta næstu skref í málinu, mynda vettvang til samstarfs og greina nánar mögulegar sviðsmyndir. Að mati ráðuneytisins er mikilvægt að önnur hlutaðeigandi stjórnvöld, þ.e. matvælaráðuneytið, innviðaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið, ásamt fleiri landshlutasamtökum sveitarfélaga og Samband íslenskra sveitarfélaga, komi einnig að samvinnu varðandi heildstæða nálgun á ferlinu um förgun dýraleifa.

Virðulegi forseti. Ég var einmitt að koma í dag af reglulegum fundi sem ég á með stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem við vorum nákvæmlega að ræða þessi mál því eins og fram kemur þá er þetta lögbundið hlutverk sveitarstjórna. En ég hef lýst því yfir að ef það er eitthvað sem við getum gert til að aðstoða í þessu mikilvæga máli þá erum við auðvitað meira en tilbúin til að koma að því.