Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 88. fundur,  27. mars 2023.

staða og framvinda hálendisþjóðgarðs.

385. mál
[18:45]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda sínar mjög svo góðu spurningar og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Mig langar bara í framhaldi af því sem hæstv. ráðherra sagði, og kom stuttlega inn á svör við spurningum um hvaða svæði hann sæi fyrir sér að gætu átt þarna undir, að halda því á lofti, af því að við gerðum það ekki í fyrri umræðu hér áðan um spurningar um endurskoðun á rammaáætlun, að afgreiðslan á rammaáætlun síðastliðið vor var til mikilla bóta þar sem út voru hreinsaðir kostir sem í rauninni enginn hafði sérstakan áhuga á og margir þeirra á hálendinu og hefur oft komið til umræðu að þau svæði sem undir væru væru sannarlega þjóðgarðsígildi, samanber hugmyndir um hálendisþjóðgarð.

En af því að hæstv. ráðherra kemur inn á þetta með mikilvægi samstöðunnar heima fyrir þá langar mig bara að nota tækifærið og spyrja hann hvort hann hafi orðið þess áskynja að hún hafi eitthvað breyst í afstöðu þeirra sveitarfélaga eða fulltrúa þeirra sem í dag standa að Vatnajökulsþjóðgarði, því að ég hef ekki skynjað neitt annað en mjög ríkan vilja þar til einmitt (Forseti hringir.) stækkunar á þeim þjóðgarði á þeim svæðum sem um ræðir, þ.e. í hans jaðri.