Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 88. fundur,  27. mars 2023.

staða og framvinda hálendisþjóðgarðs.

385. mál
[18:46]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Jódís Skúladóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og eins hv. þm. Orra Páli Jóhannssyni fyrir sína ræðu. Hæstv. ráðherra kom inn á mikilvægi samtals og samráðs og ég get fyllilega tekið undir það. Það hafa verið stórir ásteytingarsteinar í ýmsum málum er varða sveitarfélögin, hvað varðar skipulagsvald, hvað varðar ýmislegt. Þar getum við bæði horft til náttúruverndar og við getum horft til sjókvíaeldis, við getum horft á alls konar þætti. Mér þætti ákaflega gott að sjá að um svona málefni næðist góð og breið sátt. Því vil ég taka undir það hvað varðar Vatnajökulsþjóðgarð. Þar hef ég ekki annað heyrt en að um hann sé mikil ánægja. Auðvitað eru öll svona verkefni flókin og þau eru af mikilli stærðargráðu og þau taka langan tíma. Ég hef rætt við aðila erlendis frá sem meta það svo að 10, 20 ár séu ekkert svo langur tími í að koma á stofn og í almennilega framkvæmd þjóðgarði. Það var nú mikið notað hér í umræðunni á síðasta kjörtímabili að sporin hræði. Því vil ég bara segja að sporin geta líka verið þannig að þau verði bara að göngustíg, greiðum og færum. Ef við horfum til Vatnajökulsþjóðgarðar þá voru auðvitað alls konar hnökrar í upphafi, hér varð efnahagshrun, það voru alls konar hlutir varðandi skipulag og annað, en eftir því sem tíminn líður er ánægjan meiri. En ég þakka bara kærlega fyrir góða umræðu.