154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

Störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Virðulegur forseti. Stríðsátök eru mannanna verk og öllum stríðsátökum lyktir með samningum um síðir. Tíminn sem það tekur að ná téðum samningum er þó alltaf óbærilega langur, sama hvernig á það er litið. Það er eins og mannskepnan geti hvorki lært af mistökum sínum né lagt upp með að hefja ekki átök þegar ágreiningur vaknar, ágreiningur sem víða í heiminum leiðir til svo mikilla hörmunga að orð fá ekki lýst. Eftir því sem ég kemst næst standa yfir stríðsátök á ríflega 50 stöðum í heiminum í dag.

Í dag berast jafnframt jákvæðar fréttir af viðræðum um vopnahlé á Gaza í Palestínu, fréttir sem við öll í þessum sal höfum vonast eftir að heyra frá því að við samþykktum þingsályktun í nóvember síðastliðnum um að án tafar skuli komið á vopnahléi af mannúðarástæðum á Gaza-svæðinu svo tryggja megi tafarlaust öryggi almennra borgara, aðgengi hjálpar- og mannúðarsamtaka og að neyðarvistum og læknisaðstoð. Ég vona innilega, virðulegi forseti, að lendingin í þessum viðræðum verði varanlegt vopnahlé, og þótt fyrr hefði verið. Sú neyð sem almennir borgarar á Gaza búa við og blasir við heiminum öllum knýr fulltrúa alþjóðastofnana til að kveða enn fastar að orði. Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum þjáist helmingur íbúa á Gaza af miklu hungri sem eðli málsins samkvæmt skapast af mikilli óvissu um aðgengi að fæði. Haft er eftir mannréttindastjóra Sameinuðu þjóðanna að hindranir ísraelskra stjórnvalda á því að neyðaraðstoð berist íbúunum á Gaza jaðri við að stjórnvöld noti svelti sem vopn í stríði. Það sé stríðsglæpur. Þetta er ekkert annað en skipulagt svelti, virðulegi forseti, og það er mannanna verk.