154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

Störf þingsins.

[14:05]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Mig langar við þetta tækifæri að nefna það sem virðist vera orðin algerlega stjórnlaus ásælni ríkissjóðs í lönd bænda og landeiganda landið um kring. Það bárust núna nýverið fréttir af því við eftir viðtal í Bítinu á Bylgjunni þar sem bændurnir að Syðri-Fljótum lýstu ásælni sem maður eiginlega var algerlega kjaftstopp yfir, með hvaða hætti opinberar stofnanir höfðu gengið fram. Á sama tíma sjáum við ásælni ríkissjóðs í tengslum við þjóðlendulögin og útvíkkun þess regluverks sem átti sér stað árið 2020 og margir þingmenn sem hér sitja samþykktu kannski án þess að átta sig á þeim áhrifum sem þær breytingar kölluðu fram. Það eru í tengslum við náttúruminjar settar á takmarkanir, menn áætla vindmyllugarða hér landið um kring en það er þó einkaréttarlegs eðlis í flestu tilviki það sem snýr að vindmyllunum. Það er þessi ásælni ríkissjóðs, ríkisins, ríkisstofnana í jarðnæði bænda sem ég hvet stjórnvöld til að setjast nú yfir. Nægir eru fundirnir sem þessi hópur á, ríkisstjórnin sérstaklega, og það væri hægt að henda í annan hópeflisfund á Þingvöllum ef þörf er á. En ágætu ríkisstjórnarflokkar, þið verðið að gæta einhvers hófs. Það er bara í öllu, hvert sem litið er standa bændur í nauðvörn gegn ásælni ríkisins eða ríkisstofnana í jarðnæði sitt. Þessu verður að linna og ég hvet ríkisstjórnina til að víkja af þessari vegferð.