154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024--2027.

584. mál
[16:19]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Það skiptir máli að við sjáum á spilin og fáum að skipta okkur af — já, ágætt, en þurfum við í alvörunni að gera það til að passa að stjórnvöld stofni starfshóp eða endurskoði lög? Er það ekki næsta skref sem við ættum að vera að skipta okkur meira af? Eins og ég las í ræðunni minni áðan snýst þetta allt um að auka vitund, upplýsa almenning, skipa talsmann fatlaðra, sem á meira að segja að koma af þingi, búa til fræðsluefni o.s.frv., endurskoða hitt og stofna starfshópa og vinnuhópa hingað og þangað. Við þurfum ekkert að skoða þetta. Við þurfum að skoða afraksturinn af þessum verkum. Við þurfum ekki að passa upp á það að stjórnvöld stofni starfshóp. Við þurfum að skoða það sem starfshópurinn leggur til. Það er það sem ég er að segja. Þess vegna segi ég að þetta sé gjörsamlega gagnslaust. Það eru held ég allir sammála um það út af samráðinu um hvað þurfi að gera og nú eru allir orðnir sammála því að það þurfi að stofna starfshóp til að útfæra nánar hvernig á að gera það. Frábært, gerið það bara. Ekki koma með það í þingið og spyrja hvort þið megið stofna starfshóp.