131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Afnám verðtryggingar á fjárskuldbindingum.

182. mál
[17:09]

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Því er auðsvarað. Það að vera bæði með verðtryggingu og breytilega vexti er eins og maður sem notar belti og axlabönd og vill hafa snærisspotta líka. Það er mikil oftrygging í því, náttúrlega hreinn dónaskapur og bara kjánalegt að láta það viðgangast. Það er seðlabankasök að ekki sé búið að koma í veg fyrir slíkt.

Aðalatriðið að mínum dómi er að menn átti sig á því hversu brýnt er að komast út úr þessu og þá held ég að aðferðafræðin við að reikna verðið og verðþensluna hljóti að koma mjög fljótlega til skoðunar. Við sjáum dæmið núna, hvernig það virkar að vera með húsnæðisliðinn inni. Aðrar þjóðir í Evrópu eru yfirleitt ekki með húsnæðisliðinn inni og það er einfaldlega vegna þess að allir eru sammála um að það orki tvímælis hvernig það skuli gert. Þess vegna vilja menn ekki vera með þetta. Það er þess vegna sem enginn er með þetta og þess vegna ætti að vera tiltölulega auðvelt fyrir íslensk stjórnvöld að standa fyrir þeim lagabreytingum sem þarf að gera svo að við höfum þetta ekki svona.

Við ofmælum þetta og við ofmetum hvaða þensla er í gangi. Það er verðþensla í eignum, gríðarleg verðþensla í eignum á sama tíma og verðlagið er mjög kyrrt. Þær litlu verðlagsbreytingar sem eiga sér stað í viðskiptalöndum okkar munu hvort sem er alltaf koma til Íslands. Það þýðir ekkert að búa til múra í kringum Ísland og segja: Við ætlum ekki að taka inn verðlagsbreytingar frá útlöndum. Þær munu alltaf hafa áhrif. Aðalatriðið fyrir okkur er að verðlagsbreytingarnar séu svipaðar hér og erlendis þannig að við séum nokkurn veginn á sama róli og þar. Þá er samkeppnishæfni framleiðslu okkar svipuð og í kringum okkur.