132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Fjölgun starfa hjá ríkinu.

[15:24]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Fyrirspurn mín fjallar ekki um heimsmálin, heldur um byggðamálin sem ég tel að við ættum að sinna í enn meira mæli en gert er og ég er á því að þessi fyrirspurn leiði það einmitt í ljós.

Allt frá árinu 1994 hafa stjórnvöld haft það markmið að flytja störf ríkisins út á land. Á árinu 1994 hljóðaði samþykkt stjórnvalda á þessa leið, með leyfi forseta:

„Opinber þjónusta og starfsemi opinberra stofnana verði aukin á landsbyggðinni en dregin saman á höfuðborgarsvæðinu að sama skapi. Komið verði á samstarfi ríkisstofnana um svæðisskrifstofur þar sem það þykir hagkvæmt.“

Allar götur síðan hafa byggðaáætlanir innihaldið þetta markmið. Þess vegna fannst mér rétt að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hver hefði orðið fjölgun opinberra starfsmanna, starfsmanna ríkisins, á þessu tímabili. Það svar gefur til kynna að ríkisstarfsmönnum hafi fjölgað um tæplega þrjú þúsund og öll fjölgunin hefur orðið í Reykjavík.

Ég er sannfærður um að byggðamálaráðherra hefur kynnt sér þessa fyrirspurn vegna þess að ég hef ítrekað spurt hæstv. ráðherra byggðamála um mælanleg markmið. Nú í fyrirspurn á Alþingi fæ ég mælanleg markmið og ég er sannfærður um að hæstv. iðnaðarráðherra, byggðamálaráðherra, hafi kynnt sér þau vegna þess að niðurstöðurnar sýna að fjölgunin hefur einungis orðið í Reykjavík. Annaðhvort hefur störfum ríkisstarfsmanna fækkað eða þau staðið í stað á landsbyggðinni. Það væri ágætt ef hv. þingmenn landsbyggðarinnar færu yfir þessa fyrirspurn vegna þess að það kemur m.a. fram að á Norðurlandi vestra hefur fækkað um 55 störf og á Suðurlandi um 57 þannig að hér er um að ræða gríðarlega (Forseti hringir.) fækkun á meðan stjórnvöld hafa ætíð haldið því fram (Forseti hringir.) að verið sé að fjölga starfsmönnum ríkisins á landsbyggðinni.