132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Lax- og silungsveiði.

607. mál
[18:18]
Hlusta

Gunnar Örlygsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin en ég vil líka minnast á að árið 1970 voru þessi lög síðast til heildarendurskoðunar, það eru liðin 36 ár. Einmitt þá voru miklar takmarkanir settar á netaveiði. Þar áður voru engar takmarkanir. Menn gátu veitt í net 24 klukkutíma á dag sjö daga vikunnar. Við breytingarnar árið 1970 voru þær hömlur settar á að eingöngu mátti veiða í net frá þriðjudegi til föstudags. Mér skilst að á þeim tíma hafi ekki verið litið á þær breytingar sem eignarnám. Samkvæmt mínum upplýsingum kom aldrei til bótagreiðslna til bænda vegna þeirra takmarkana sem voru settar á netaveiðina á þeim tíma. Þetta er hv. þingmanni til upplýsingar.

Í ljósi þessa vil ég spyrja hv. þingmann hvort breytingarnar sem urðu árið 1970 séu ekki einmitt fordæmisgefandi fyrir þær breytingar sem kynnu að verða í meðförum þingsins núna við þetta mál.

Í annan stað vil ég spyrja hv. þingmann: Ef frjálsir samningar nást ekki á milli hagsmunaaðila og landeigenda, hvaða möguleikar eru þá í stöðunni? Þarf þá ekki að grípa til lagasetningar til að tryggja að netin fari upp?

Það er eins og peningagreiðslur skipti ekki máli í samningaviðræðum, til að mynda á milli Stangveiðifélags Reykjavíkur og ákveðinna bænda á vatnasviði Ölfusár og Hvítár. Stangveiðifélag Reykjavíkur hefur boðið landeigendum tvær krónur fyrir hverja eina sem þeir afla með netaveiðinni í dag og verður að teljast fullreynt hjá hagsmunaaðilum að semja við ákveðna bændur á þessu svæði.

Því vil ég leyfa mér að spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki einfaldlega að málinu sé best komið í þeim farvegi að löggjafinn grípi inn í og tryggi hámarksnýtingu á þessum náttúruauðlindum, rétt eins og við reynum að gera þegar við fjöllum um lög um stjórn fiskveiða.