132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Varnir gegn fisksjúkdómum.

596. mál
[21:36]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Herra forseti. Það er kannski rétt að taka fram í upphafi vegna síðustu orða að hér stendur einn úr hópi þeirra fiskeldisfræðinga sem gráta stöðu fiskeldis á Íslandi í dag. Ég hef trú á því að í framtíðinni muni stór hluti af matfiski verða framleiddur í fiskeldi. Sú vinna sem er í gangi í dag er nauðsynleg þróunarvinna fyrir fiskeldið í framtíðinni.

Ég var að velta svolitlu fyrir mér hér, herra forseti, varðandi stjórnsýslu. Við höfum verið að lesa þessi frumvörp saman og í 4. gr. í frumvarpi um eldi vatnafiska er sérstök nefnd sem kallast fiskeldisnefnd. Í henni eru fimm aðilar og þar á meðal einn samkvæmt tilnefningu Landssambands fiskeldisstöðva.

Er við förum yfir í frumvarp til laga um varnir gegn fisksjúkdómum segir m.a. í ákvæði til bráðabirgða, með leyfi forseta:

„Frá gildistöku laga þessara og til loka ársins 2010 skal starfa samráðsnefnd um framkvæmd þeirra, laga um lax- og silungsveiði, laga um Veiðimálastofnun laga um fiskrækt og laga um eldi vatnafiska.“

Í þeirri nefnd eru 10 fulltrúar, þar á meðal fulltrúi frá Landssambandi fiskeldisstöðva.

Í 4. gr. frumvarps um fisksjúkdóma, kafla um stjórnsýslu, er getið um fimm manna svokallaða fisksjúkdómanefnd en ég tek eftir að í henni á ekki aðild neinn frá Landssambandi fiskeldisstöðva. Ég er að velta fyrir mér hver ástæðan fyrir því sé og hvort ekki væri eðlilegra að í fisksjúkdómanefnd væri eðli máls samkvæmt jafnframt einn fulltrúi frá Landssambandi fiskeldisstöðva, auk þess að það sé einn frá rannsóknardeild fisksjúkdóma, einn samkvæmt tilnefningu Hafrannsóknastofnunar, einn samkvæmt tilnefningu frá Veiðimálastofnun og einn frá Fiskistofu og yfirdýralækni. (Gripið fram í: … fjármálaráðuneytinu.) Annað var það ekki í bili, herra forseti.