133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[14:52]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það mun hafa verið í ríkisstjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks — forsætisráðherra þess tíma, Davíð Oddsson, lauk hinum fyrsta alþjóðlega GATT-samningi með ákvæðinu um innflutning á erlendum landbúnaðarvörum — að sú stefna var mörkuð að þetta gerðist á löngum og hægfara tíma og að landbúnaðurinn gæti búið sig undir breytinguna. Það er auðvitað sú vegferð sem við erum enn á í WTO-samningum. Þar liggur ekkert fyrir enn þá í næstu lotu. Hún er þegar búin að taka 3–4 árum lengri tíma en hún átti að gera.

Það er ljóst mál að Bandaríkjamenn, Frakkar, Bretar, öll þessi ríki eru að hugsa um sinn landbúnað. Allar þær 149 þjóðir sem þar sitja yfir málum eru að hugsa um sinn landbúnað, vilja halda í sinn landbúnað eins og íslenska þjóðin var að staðfesta nú í skoðanakönnun fyrir stuttu að hátt í 94% þjóðarinnar vilja standa vörð um íslenskan landbúnað. Stefnumörkunin er enn skýr. Tollar munu sjálfsagt lækka í gegnum WTO-samninga (RG: …samning …) en það mun gerast þannig að bændurnir búa sig undir og geta frekar mætt þeim málum með svona samning á bak við sig. Það kom aldrei annað til greina af minni hálfu og ríkisstjórnarinnar en að gera langtímasamning við íslenska bændur svo að þeir gætu búið sig undir þá framtíð. Við erum ekki að fara í neina holskeflu eins og Samfylkingin hefur boðað í gegnum tíðina og gerði í sumar þegar fylgið féll af henni af því að hún réðist á bændurna og fólkið í afurðastöðvunum. (ÖS: Af hverju …?) Það var hennar slys. Við erum rísandi (Gripið fram í: Rísandi?) flokkur og verðum stór með vorinu þegar þjóðin fer að hugsa. Hún veit sem er að hún vill ekki kaffibandalagið. (Forseti hringir.) Hún vill ekki kaffibandalagið til valda.