141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

breyting á lögum um almannatryggingar.

[10:44]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það kemur skýrt fram að vinnulagið er gagnrýnt mjög þunglega í þessari umsögn og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, fyrst hún segir að standa eigi við áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum: Hvar og hvaðan er ráðgert að taka þessa fjármuni? Það má til dæmis segja að slík kostnaðaraukning svari til árlegra heildarútgjalda við barnabótakerfið. Er það það sem á að víkja? Hvað á að skera niður á móti þessum miklu breytingum? Hvar birtast þær áherslur? Ráðherrann segir að búið sé að fara yfir þetta inni í ráðuneyti og þá hljóta menn að vera búnir að gera sér grein fyrir því með hvaða hætti þeir ætla að koma til móts við þennan stóraukna kostnað. Hvar á að taka þessa peninga?