144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég hef miklar áhyggjur af þróun mála varðandi Reykjavíkurflugvöll. Á nýliðnum umhleypingasömum vetri, vonandi er hann liðinn, hefur mikilvægi flugbrautarinnar sem liggur frá norðaustri til suðvesturs, svokallaðrar neyðarbrautar, komið skýrt í ljós. Má þar til dæmis nefna að sunnudaginn 8. mars lentu áætlunarvélar níu sinnum á brautinni. Flugfélög, einstaklingar, fyrirtæki og opinberar stofnanir hafa orðið fyrir umtalsverðum kostnaði vegna tíðrar röskunar á flugi í vetur og ekki væri kostnaðurinn og röskunin minni ef brautirnar væru færri.

Það er því mikil kaldhæðni að nú, þegar hillir undir vorið, skuli vera hafist handa við framkvæmdir sem leiða til þess að leggja þarf neyðarbrautina af. Getur þjóðin leyft sér það meðan ekki er búið að finna aðrar lausnir í flugvallarmálinu? Eða eigum við ekki von á fleiri erfiðum vetrum?

Mikið hefur verið gert úr skuldbindingum höfuðborgarinnar við fasteignafélagið Valsmenn. En hverjar eru skuldbindingar borgarinnar við þjóðina? Hvaða skuldbinding felst í þeim samningi sem Reykjavíkurborg hefur gert við þjóðina með sínum skipulagsáætlunum í gegnum tíðina þar sem flugvöllurinn, sem gefinn var þjóðinni, hefur lengst af verið inni á áætlunum? Hvað þarf til að virkja bótaréttinn sem kveðið er á um í 51. gr. skipulagslaga? Gæti lokun flugvallar í fullum rekstri í óþökk eigenda skapað bótaábyrgð Reykjavíkurborgar gagnvart ríkinu eða jafnvel lokun einstakra flugbrauta orðið grundvöllur að bótaábyrgð Reykjavíkurborgar ef rekstrarskilyrði flugvallarins skerðast? Þarf borgin að bæta þjóðinni flugvöllinn og hefur borgin bolmagn til þess að greiða fyrir nýjan flugvöll eða er ætlast til þess að ríkið geri það? Er vilji og möguleiki fyrir því að á næstu árum þurfi að forgangsraða fjármagni til samgöngumála (Forseti hringir.) í að byggja nýjan flugvöll?