145. löggjafarþing — 89. fundur,  16. mars 2016.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Mig langar að gera hér að umtalsefni lengd kjörtímabils á Alþingi. Þær hugmyndir hafa verið settar fram og komið úr herbúðum tveggja stjórnmálaflokka á Alþingi, nefnilega Pírata og Samfylkingarinnar, að ástæða væri til þess að hafa kjörtímabilið að loknum næstu kosningum mun styttra en lög kveða á um, þ.e. níu mánuði. Ástæðan sýnist mér vera sú að kjörnir fulltrúar og jafnvel flokkarnir sjálfir sem um ræðir eiga í einhverjum vandræðum með að taka afstöðu til fyrirliggjandi tillagna um breytingu á stjórnarskránni. Þær tillögur sem nú liggja fyrir eru þó einfaldar og skilmerkilegar. Þeirri hugmynd hefur verið teflt fram í því augnamiði að næsta kjörtímabil fjalli eingöngu um stjórnarskrármálefni, eins praktískt og það nú er. Ég ætla að láta það liggja á milli hluta að þessu sinni.

Ég velti hins vegar fyrir mér lengd kjörtímabils almennt og um það er hægt að hafa mörg orð. Eins og menn þekkja er það fjögur ár hér. Það er með ýmsum hætti annars staðar.

Mig langar þá að vekja athygli á tvennu er varðar lengd kjörtímabilsins.

Hvað varðar til dæmis stutt kjörtímabil er rétt að menn hafi í huga að það getur reynst afskaplega erfitt að fá nýja einstaklinga í framboð ef kjörtímabilið er stutt. Er til dæmis raunhæft að margir sem eru í farsælum störfum annars staðar séu tilbúnir að fórna því fyrir kosningar og prófkjör tvisvar á einu ári? Þá má líka nefna að stutt kjörtímabil dregur svo sannarlega úr vinnufriði á Alþingi, jafnvel gerir fjögurra ára kjörtímabil það, eins og nýleg dæmi sanna (Forseti hringir.) þar sem kosningaskjálfti virðist nú einkenna ummæli og hugmyndir ýmissa sem fram hafa komið undanfarið.


Efnisorð er vísa í ræðuna