145. löggjafarþing — 89. fundur,  16. mars 2016.

hagsmunatengsl forsætisráðherra.

[15:39]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Það er nú svo að það er ekki eins og sú umræða sem hér er vakin af hálfu hv. þm. Björns Vals Gíslasonar sé úr lausu lofti gripin. Það kemur fram yfirlýsing frá eiginkonu hæstv. forsætisráðherra um fjárhagsmál hennar, sem sannarlega eru hennar, en þeirri umræðu fylgir að Jóhannes nokkur, aðstoðarmaður forsætisráðherra, sjái um samskipti við fjölmiðla hvað það mál varðar hér eftir. Þannig að það að tengja þetta mál stöðu forsætisráðherra og hagsmunum hans og hagsmunaskráningu er ákvörðun sem þau hafa tekið sjálf. Þess vegna er fullkomlega eðlilegt að við ræðum það hér hvort ekki sé réttast — við erum nú hér í dag að ræða siðareglur — að hagsmunaskráning þegar um er að ræða svo ríka fjárhagslega hagsmuni innan heimilis (Forseti hringir.) sé sýnileg almenningi, hvort sú krafa sé ekki réttmæt. Ég bara bið fólk að anda með nefinu í þeim efnum. Er þetta ekki eitthvað sem má ræða án þess að súpa hveljur?