145. löggjafarþing — 89. fundur,  16. mars 2016.

siðareglur fyrir alþingismenn.

115. mál
[16:07]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég þakka meðflutningsmönnum málflutninginn og meðnefndarmönnum mínum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fyrir umræður um frumvarpið. Ég held að þetta sé sannarlega mikilvægt skref sem full ástæða er til að fagna og auðvitað hluti af stærri mynd í úrbótum á stjórnkerfi okkar og lýðræðiskerfi sem ráðist hefur verið í eftir efnahagshrunið 2008 þar sem settar hafa verið reglur um fjármál stjórnmálaflokka, fjármál stjórnmálamanna, siðareglur í stjórnsýslunni og nú siðareglur fyrir alþingismenn.

Ég vona að þær breytingar sem urðu á málinu í meðförum nefndarinnar séu til góðs og fagna því að þau deilumál sem kunna að rísa um þetta efni hafi loksins fundið farveg sem sé annar en hinar pólitísku þrætur í ræðustól.