145. löggjafarþing — 89. fundur,  16. mars 2016.

stefna um nýfjárfestingar.

372. mál
[16:14]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við vinstri græn styðjum þetta mál og ég sem varaformaður atvinnuveganefndar hef ásamt samþingsmönnum mínum beitt mér fyrir því að koma inn breytingum, fyrst og fremst skuldbindingum Íslands frá loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna varðandi loftslagsmálin. Hér er breytingartillaga um það og tel ég mikinn áfanga að fá það inn.

Enn fremur geri ég þann fyrirvara að leggja þarf mikla áherslu á innviðauppbyggingu til að hægt sé að auka möguleika á nýfjárfestingum um allt land. Það vantar virkilega innviðauppbyggingu í landinu. Ég geri líka grein fyrir því í mínum fyrirvara að við vinstri græn viljum leggja áherslu á þingsályktunartillögu frá 2010 um eflingu græna hagkerfisins sem ég tel mjög mikilvægt. Sá misskilningur virðist vera uppi að hér sé á ferðinni mál sem lýtur að ívilnunum. Svo er ekki, (Forseti hringir.) við erum ekki að fjalla um ívilnanir, við erum að fjalla um nýfjárfestingar og það er undirstrikað í greinargerð að það er verið að snúa af þeirri braut að beina orkunni í stóriðju og á þá braut að beina henni í smærri og minni orkuneytendur.