145. löggjafarþing — 89. fundur,  16. mars 2016.

stefna um nýfjárfestingar.

372. mál
[16:15]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég vil árétta afstöðu Bjartrar framtíðar gagnvart þessu máli. Það er mikilvægt að við setjum okkur stefnu en þá þarf eitthvað að koma fram í þeirri stefnu og hún þarf að vera skýr.

Þessi stefna er því miður hvorki fugl né fiskur. Það verður hægt að lesa hana sem grundvöll undir fyrst og fremst aukna orkunýtingu og þar með auknar virkjanir. Þessi stefna er ekki almenn heldur einmitt sértæk til ákveðinna tegunda fyrirtækja og ákveðinna svæða á landinu sem er ekki í þeim anda sem við viljum sjá nýfjárfestingar vera í.

Þó að við vildum gjarnan vera með á stefnu um nýfjárfestingar treystum við okkur ekki til að vera með á þessari stefnu sem er ekki almenn og er í raun og veru ansi gamaldags.