145. löggjafarþing — 89. fundur,  16. mars 2016.

stefna um nýfjárfestingar.

372. mál
[16:16]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari þingsályktunartillögu þar sem áhersla er lögð á að sérstaklega verði horft til uppbyggingar á fjölbreyttum atvinnutækifærum á landsbyggðinni með byggðafestu á landsbyggðinni í huga. Þó að sérstök áhersla sé lögð á það þýðir það ekki að höfuðborgarsvæðið sé skilið út undan.

Þarna er þess líka getið að sérstaklega hafi verið horft til uppbyggingar á dreifi- og flutningskerfi raforku. Þess er getið sérstaklega að horft verði til minni fyrirtækja í orkuiðnaði, ekki til stóriðju. Þarna er litið til loftslagsmála og ég ítreka að ég skrifa undir þetta með fyrirvara þar sem ég legg áherslu á að líta þurfi hnattrænt á loftslagsmál þegar tekin er ákvörðun um (Forseti hringir.) staðsetningu tiltekinnar starfsemi. Þá á ég við það hvort hagstæðara sé fyrir loftslagsmálin að byggja viðkomandi starfsemi upp hér á landi eða einhvers staðar annars staðar í heiminum.