151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[16:43]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og fagna því að hún skuli ræða þessi mál af rósemi og af yfirvegun. Það eru ekki alltaf allir sem treysta sér til þess. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að frumvarpið er í sjálfu sér ekki mikið að efni. Er ekki verið að fjölga þarna um tvo í Fjölmenningarsetri og endurskipuleggja innflytjendaráð? En það sem gefur tilefni til að ræða þetta mál í víðara samhengi er frumvarpið sjálft, þ.e. greinargerðin, það sem þar segir um að flóttamönnum og þá væntanlega hælisleitendum eigi að bjóða sömu kjör og þeim sem hingað eru sérstaklega boðnir, svokölluðum kvótaflóttamönnum. Það er frumvarpið sjálft sem gefur tilefni til að ræða þennan málaflokk í miklu víðara samhengi en bara í tengslum við þær tvær stofnanir sem ég var að nefna. Það eru auðvitað fleiri tilefni. Það eru hinar háu tölur þar sem við erum með sexfalt fleiri umsækjendur hér en í Noregi og Danmörku og náttúrlega sá mikli kostnaður sem fer í þennan málaflokk og svo náttúrlega stefnubreytingin sem er svo augljós á Norðurlöndum og þá sérstaklega undir forystu jafnaðarmanna í Danmörku. Ég leyfi mér því að spyrja: Hver er stefna hv. þingmanns? Hún talaði um framtíðarstefnu. Getur hún með engu móti tekið undir stefnu Dana um að þeir ráði sjálfir hverjir komi og að þeir noti hið takmarkaða fé sem er til ráðstöfunar til að leitast við að hjálpa sem flestum og sem best? Þeir gera það með því að hjálpa fólki á heimaslóð og loks um farveg hins alþjóðlega þróunarsamstarfs á vettvangi Alþjóðabankans og fleiri ágætra stofnana.