151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[16:49]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni fyrir seinna andsvar. Honum eru dönsk stjórnmál og stefna danskra stjórnvalda mjög hugleikin í umræðum um frumvarp um samþættingu í móttöku flóttafólks þar sem Fjölmenningarsetri er falið víðtækara hlutverk. En gott og vel, ég hef mjög gaman af því að ræða alþjóðastjórnmál. Já, gettóin í Danmörku hafa verið fordæmd víða. Ég tek bara undir þá fordæmingu. Gettóvæðingin eins og henni var framfylgt í Danmörku og hefur verið síðustu árin er hreinlega viðbjóður. Þetta hefur ekkert að gera með mannúðlega móttöku flóttafólks og minnir á skelfilegasta tímabil í evrópskri sögu og hefur nánast skírskotun og tilvísanir í það. Hvað eru dönsk gildi, spyr ég bara líka á móti? Og hv. þingmaður spyr um kvenfrelsi í þessu samhengi sem á að hafa verið brotið innan gettóanna. Ég er femínisti og mótmæli að sjálfsögðu brotum á kvenfrelsi hvar sem þau gerast að sjálfsögðu, hvort sem það er hér á Íslandi eða í Evrópu eða í nágrannalöndum okkar eða hvar sem er.

Svo spyr hv. þingmaður hvort eitthvað sé í stefnu danskra stjórnvalda sem ég geti tekið undir þegar kemur að móttöku innflytjenda og flóttafólks. Ég hef ekki nýlega lagst í nákvæman lestur á stefnu þeirra en þegar ég fór yfir það síðast var ekki margt sem ég gat fellt mig við í þeirri stefnu (Forseti hringir.) þegar kemur að móttöku flóttafólks og innflytjenda, því miður. En miðað við þau viðbrögð sem dönsk stjórnvöld og þeirra stefna í innflytjendamálum hefur fengið hljóta þau að hugsa sinn gang og láta staðar numið á þeirri vegferð sem þau hafa verið á en þau hafa skorið sig gríðarlega úr (Forseti hringir.) þegar kemur að stefnumótun ríkisstjórna í Evrópu í málefnum innflytjenda og flóttafólks.