151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[18:10]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir andsvarið. Svarið er að ég held að við eigum að einbeita okkur að því að ná vel utan um og mögulega útvíkka, þó að ég sé ekki tilbúinn að nefna einhverja tölu, kvótaflóttamannakerfið, þetta alþjóðlega samstarf sem við erum í. Ég tel að það sé vænlegasta leiðin til þess einmitt að styðja við að þeir sem hingað koma með einum eða öðrum hætti í leit að betra lífi, hver sem ástæðan er, og koma í gegnum þau kerfi, aðlagist hratt og vel. Eins og ég sagði áðan hefur til að mynda verið unnið frábært starf hjá Fjölmenningarsetrinu á Ísafirði eins og það er.

Svarið við spurningunni er að ég held að við setjum áhersluna alla á kvótaflóttamannakerfið en horfum í átt til, eins og rætt hefur verið nokkrum sinnum í dag, t.d. þess sem sósíaldemókratarnir í Danmörku eru að gera, að aðstoða fólk nær sínum heimkynnum og ná þar með að hjálpa miklu fleiri einstaklingum en nokkurn tímann er mögulegt í Danmörku, í því tilviki. Þannig að ég held að við ættum að horfa til þess að aðstoða fólk á sínum heimasvæðum og síðan að styðja betur við kvótaflóttamannakerfið og hafa þann farveg sem algjöran meginfarveg þeirra sem koma hingað til lands og auka þar með líkurnar á að aðlögun, hvort sem við erum að tala um íslenskukennslu eða það að komast í fasta vinnu og gerast skattgreiðendur þar, eigi sér stað í gegnum það kerfi. Það er mín skoðun í þessum efnum.