151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[19:08]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sannarlega sammála því. Almennt held ég að menn hafi verið sammála um það á Íslandi, ekki alls fyrir löngu, að við ættum að taka á móti eins mörgum og við gætum tekið vel á móti en einnig að aðstoða fólk í flóttamannabúðunum og í grennd við þau svæði þar sem menn eru að flýja, því að reynslan hefur sýnt það, og ég þekki það bara af eigin raun eftir að hafa heimsótt flóttamannabúðir nokkrum sinnum, að langflestir vilja geta snúið heim. Hins vegar skortir víða mjög á stuðning við fólk á staðnum vegna þess að stjórnmálamenn vilja frekar geta sýnt að þeir séu að gera eitthvað með því að láta það birtast í sínu nærumhverfi og vanrækja þar af leiðandi allt of oft það sem er að gerast og væri hægt að gera miklu meira af, að hjálpa í nærumhverfinu.

Ég er sannarlega sammála hv. þingmanni um þetta. Þetta er líka rauður þráður, sem er líklega viðeigandi hugtak í því samhengi, í stefnu danskra jafnaðarmanna. Hv. þingmaður byrjaði að spyrja um lausnir, hvernig hægt væri að gera þetta. Við getum lært heilmikið af þeirri stefnu, sem er afrakstur áratugaþróunar og -umræðu og -reynslu sem hefur skilað sér í gríðarlega vel unninni stefnumótun sem við Íslendingar ættum að nýta, og læra af reynslu annarra í stað þess að gera sömu mistök sjálf. En það mun ég fara betur yfir síðar í þessari umræðu.