151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[19:18]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég ætlaði að fylgja því svolítið eftir sem hv. þm. Ólafur Ísleifsson var að fara yfir, þ.e. að læra af reynslu Norðurlandanna þegar kemur að málefnum flóttafólks og hælisleitenda. Nú höfum við verið að ræða í dag þetta frumvarp sem kemur frá ríkisstjórninni, ríkisstjórnarflokkunum, Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki og Vinstri grænum, sem gengur út á það að hælisleitendur fái sömu þjónustu og kvótaflóttamenn, að ekki verði gerður greinarmunur á því með hvaða hætti þeir koma til landsins. Þetta mun þýða að allir fái sömu þjónustu. Þá erum við að senda ákveðin skilaboð til útlanda um að hér sé veitt enn betri þjónusta en er í dag. Sú þjónusta sem er veitt í dag er mjög góð, gleymum því ekki. Þetta mun örugglega hafa í för með sér, herra forseti, að hingað muni koma fleiri og fleiri umsækjendur um alþjóðlega vernd eða hælisleitendur. Það spyrst hratt út að hér sé góð þjónusta og menn leita þangað sem hún er best.

Svo þekkjum við það, eins og ég hef rakið hér í dag, að því miður eru allt of margir sem misnota þetta kerfi, sækja um vernd með tilefnislausum hætti, þ.e. eiga ekki rétt á henni en fara hins vegar í kerfið hér. Það kostar síðan heilmikla peninga fyrir skattgreiðendur þegar menn eru í kerfinu svo mánuðum skiptir, jafnvel ár og allt upp í tvö ár, og fá síðan neitun. Það hefur það í för með sér að kerfið er orðið stjórnlaust og við ráðum ekki við það hvernig við tökum á móti fólki eða hversu margir koma hingað. Það er eitthvað sem er mikið áhyggjuefni og hefur komið fram hér í ræðum. Ég hjó sérstaklega eftir því í ræðu hv. þm. Brynjars Níelssonar að hann fór vel yfir það að við ráðum ekkert við það hversu margir komi hingað. Hingað gætu komið þúsundir manna án þess að við myndum nokkuð fá við ráðið, kerfið býður upp á það og lögin eru þannig.

Það sem ég vildi koma inn á í þessari annarri ræðu minni er að læra af reynslu nágrannaþjóðanna. Þá ætla ég að horfa sérstaklega til Svíþjóðar. Á alþjóðavettvangi eru Norðurlöndin hvað þekktust fyrir hið norræna velferðarkerfi. Uppruna þess má að stóru leyti rekja til Svíþjóðar. Það sem gerði Svíum kleift að stofna öflugt velferðarkerfi á sínum tíma var ekki síst að þar hafði byggst upp þjóðskipulag sem einkenndist af miklu jafnræði og sáttarvilja þegnanna, þar skapaðist traust á meðal fólks sem hafði mótast úr sama jarðvegi og hafði sömu lífsviðhorf. Svíþjóð var t.d. hlutlaust ríki á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar sem gerði landinu kleift að auðgast allnokkuð á sölu málma sem notaðir voru í hergagnaframleiðslu, ekki síst í Þýskalandi. Við stríðslok var Svíþjóð ásamt Bandaríkjunum á meðal fárra vestrænna iðnríkja sem ekki höfðu orðið fyrir efnahagslegum skakkaföllum vegna stríðsins. Það forskot gerði Svíþjóð og Bandaríkjunum kleift að vaxa mjög hratt efnahagslega eftir stríð. Það er nauðsynlegt að rekja þetta vegna þess að Svíþjóð hefur verið gríðarlega öflug þegar kemur að velferðarkerfinu.

Hagvöxtur í Svíþjóð frá stríðslokum fram á sjöunda áratug síðustu aldar var árlega um 4% að meðaltali. Sá mikli hagvöxtur gerði sænskum stjórnvöldum efnahagslega kleift að fjárfesta í uppbyggingu velferðarkerfisins. Á sjötta áratugnum var hagvöxtur óvenjumikill eða á bilinu 6–7%. Þá fór að bera á vinnuaflsskorti og sænsk stjórnvöld gripu til þess ráðs að fjölga erlendu vinnuafli sem kom að mestu leyti frá Evrópuríkjum, þar með talið Júgóslavíu og Tyrklandi. Á sama tíma setti sænska ríkisstjórnin af stað mjög metnaðarfullt verkefni sem fólst í að byggja milljón íbúðir sem flestar voru í blokkarhverfum í útjaðri ýmissa borga landsins. Á sjöunda áratugnum brutu Svíar líka nýtt blað með því að taka á móti allstórum hópum flóttamanna, t.d. gyðingum og fólki sem flúði valdatöku hersins í Síle á sínum tíma.

Í byrjun níunda áratugarins, þegar bylgja alþjóðlegs viðskiptafrelsis skall á af miklum þunga og framleiðsla margra vestrænna ríkja fluttist í stórum mæli til þróunarlanda í Asíu, lenti Svíþjóð í sinni fyrstu alvarlegu efnahagskreppu. Þjóðarframleiðsla dróst saman á fyrri hluta níunda áratugarins. Þrátt fyrir þessi efnahagslegu áföll byrjuðu sænsk stjórnvöld á þessum tíma að skilgreina landið sem sérstakan verndarstað fyrir mannúðaraðstoð. Það leiddi til þess að flóttamönnum sem komu til Svíþjóðar fjölgaði mjög hratt, ekki síst frá múslimaríkjum í Afríku og Vestur-Asíu. Sú þróun hefur haldið áfram frá upphafi þessarar aldar og náði hámarki á tímum stríðsins í Sýrlandi árið 2015 sem olli miklum flóttamannastraumi um Evrópu, þegar ein til tvær milljónir manna leituðu hælis í Evrópuríkjunum, ekki síst Þýskalandi og Svíþjóð. Á tímabilinu 2015–2017 tók Svíþjóð t.d. til afgreiðslu meira en 218.000 umsóknir hælisleitenda og flestar voru þær frá Sýrlandi, Afganistan og Írak. Á sama tíma höfnuðu hins vegar ýmis auðug arabaríki því að taka á móti flóttamönnum frá nágrannalandinu Sýrlandi.

Samkvæmt nýjum tölum frá Sameinuðu þjóðunum fyrir árið 2019 eru 20% sænskra ríkisborgara í Svíþjóð af erlendu bergi brotin. 20% Svía eru af erlendu bergi brotin og nálægt 10% Svía eru núna múslimar. Samkvæmt nýlegri spá rannsóknarmiðstöðvarinnar Pew í Bandaríkjunum gæti sú tala náð 35% um miðja þessa öld ef núverandi þróun helst óbreytt. Yfir 30% af öllum fæðingum í Svíþjóð eru hjá mæðrum fæddum utan landsteinanna.

Áhrifa þessara miklu breytinga á samsetningu sænsku þjóðarinnar er þegar farið að gæta á vettvangi stjórnmálanna. Á tímabilinu frá byrjun þriðja áratugar fram á seinni hluta áttunda áratugar síðustu aldar réðu sósíaldemókratar nánast öllum lénum í Svíþjóð. Landið hafði einungis þrjá forsætisráðherra á þessu tímabili, sem nutu mikillar virðingar á alþjóðavettvangi. Nú hafa hins vegar orðið mikil umskipti í sænskum stjórnmálum því í byrjun þessa árs mældust Svíþjóðardemókratar með meira fylgi en nokkur annar stjórnmálaflokkur í landinu. Þessi pólitísku umskipti, herra forseti, eru sérstaklega tengd vaxandi áhyggjum almennings af þeim áhrifum sem svo mikill fjöldi fólks af erlendum uppruna er þegar farinn að hafa á menningu landsins, auk hins háa kostnaðar sem aðlögun flóttamanna að sænsku þjóðfélagi hefur haft í för með sér, ekki síst áhyggjum af því hvað þessi þróun kunni að þýða fyrir langtímasjálfbærni velferðarkerfisins. Í Svíþjóð er t.d. of lítill hvati fyrir flóttamenn að sækjast eftir vinnu, sérstaklega fyrir barnafjölskyldur þar sem það lækkar verulega bætur frá velferðarkerfinu. Stór hluti flóttamanna hefur einnig í mörgum tilvikum þjappað sér saman í blokkarhverfum sem reist voru á sjötta áratugnum í útjaðri ýmissa borga eins og ég nefndi hér áðan. Þessi borgarstefna hefur leitt til þess að margir innflytjendur aðlagast ekki sænsku þjóðfélagi og halda þess í stað fast í hugsunarhátt og venjur heimalandsins. (Forseti hringir.)

Ég næ ekki að ljúka, herra forseti, þessari umfjöllun minni um að læra af reynslu nágrannaþjóðanna og sérstaklega Svíþjóðar, ef forseti (Forseti hringir.) gæti vinsamlega sett mig aftur á mælendaskrá.