Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

aðgerðir til að minnka halla ríkissjóðs.

[12:08]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Þær aðgerðir sem við erum búin að kynna í fjármálaáætlun verða útfærðar nánar í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2023 en þær senda skýrt merki um að við stöndum með Seðlabankanum í peningastefnunni. Það er nákvæmlega það sem við erum búin að ræða í þessum sal árum saman: Hvernig getum við látið ríkisfjármálin og peningastefnuna vinna betur saman? Það eru ótal dæmi um hvernig það hefur ekki gengið eftir á liðnum árum, en ef við horfum t.d. á heimsfaraldurinn sjáum við hvernig nákvæmlega þessir þættir unnu vel saman. Það skýrir um margt þá góðu stöðu sem hagkerfið er í og mun betri en spáð var. Nú hafa aðstæður breyst hratt, ekki síst vegna þess að það er styrjöld í Evrópu, og þá þurfum við aftur að endurskoða það sem við erum að gera þannig að ríkisfjármálin styðji við peningastefnuna.

Ég vil minna hv. þingmann á að samkvæmt lífskjararannsókn Hagstofunnar fyrir árið 2021 standa heimilin í landinu vel, hvort sem litið er til vanskila, kaupmáttaraukningar, hvert sem við lítum. En við þurfum hins vegar að vera með augun á boltanum í þessu. Við þurfum sérstaklega að horfa til þeirra sem eru á leigumarkaði þegar kemur að húsnæðiskostnaði. Og ég vil líka minna hv. þingmann á að fyrstu aðgerðir okkar til að bregðast við verðbólgu voru hækkun á greiðslum almannatrygginga, hækkun á húsnæðisstuðningi og barnabótaauka, af því að við viljum tryggja að hinir tekjulægstu séu varðir fyrir áhrifum af verðbólgunni.