Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

168. mál
[12:47]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Helsta vörn stjórnarliða í þessu máli virðist vera sú að þegar sé búið að gera sambærileg mistök á öðru sviði og því þurfi að halda áfram með það á þessu sviði. Þetta er eins og sagan um Einbjörn, Tvíbjörn og Þríbjörn og þá bræður alla. Við getum þá átt von á áframhaldandi viðhengjum við þetta mál án þess að litið sé á raunverulegt innihald málsins. Aftur og aftur er þetta sama sagan. Þetta er spurning um umbúðir.

Eins og hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir benti á — og við erum ekki alltaf sammála — er mjög óljóst hver ávinningurinn af þessu er í réttindavernd. Hins vegar er mjög veruleg hætta á því, og ég myndi ekki bara segja hætta heldur kemur það beinlínis fram í frumvarpinu, að til standi að setja hömlur á gagnrýni á lífsskoðanir, á skoðanir fólks, á ólíkar skoðanir. Við hér á Alþingi Íslendinga hljótum að vilja standa vörð um málfrelsið og gagnrýni á skoðanir, hvers eðlis sem þær eru, hvort sem þær eru slæmar eða góðar. Við hljótum að vilja verja frelsi almennings til að gagnrýna skoðanir annarra.