Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

tollalög.

9. mál
[15:08]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Það sem kom fram hér hjá hæstv. ráðherra varðandi það að aðrar þjóðir hafi þegar gengið til þess ráðs að opna fyrir tollaniðurfellingar frá Úkraínu þá sýnist mér margar af þeim þjóðum sem við berum okkur helst saman við sömuleiðis vera búnar að grípa til umfangsmeiri aðgerða hvað varðar rekstrarskilyrði landbúnaðar á sínum heimasvæðum. Ég hvet hæstv. ráðherra til að horfa á þetta heildstætt þannig að mikill fjöldi þeirra bænda sem stunda sauðfjárbúskap eða framleiða nautakjöt, svo dæmi sé tekið, heltist ekki úr lestinni núna vegna tímabundins ástands á mörkuðum. Að hluta til er þetta bráðavandi og honum þarf að mæta, held ég, með miklu meira afgerandi hætti en ríkisstjórnin hefur gert nú þegar. Síðan er aftur langtímavandinn sem verður ekki skorast undan að taka á með mjög afgerandi hætti. En ég held að í öllu falli verðum við að tryggja að ekki verði meiri háttar brottfall úr þessum stéttum sem framleiða heilnæmustu vörur í heimi vegna tímabundins ástands sem bændurnir sjálfir hafa enga stjórn á.