Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

tollalög.

9. mál
[15:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég vil bara taka undir með hv. þingmanni, ég held að þetta sé mikilvægt. Við höfum verið að horfa til þess að í sjálfu sér sé engin ástæða til þess að við gerum minna en önnur lönd í kringum okkur hafa verið að gera. Það er hárrétt að þar hefur víða verið gripið til nokkuð umfangsmikilla stuðningsaðgerða, þannig að ég vænti þess að þegar tillögurnar eru komnar fram muni það sýna sig að við erum bæði í færum til að bregðast við og við viljum gera það myndarlega þannig að ekki verði brottfall úr greinum að óþörfu út af þessum óvæntu og hörmulegu atburðum. Ég nefni sem dæmi þróun á verði fóðurs sem hefur verið að hækka mjög hratt og það hefur gríðarlega mikil áhrif á framleiðslukostnað. Ef ekki verður neitt gert við því þá er það rétt, sem hv. þingmaður segir, að mikil áföll geta orðið í matvælaframleiðslu á Íslandi. Við skulum hafa í huga að stríðið hefur sett matvælaframleiðslu á Íslandi í dálítið nýtt ljós. Hugtök eins og matvælaöryggi hafa þá skyndilega raunhæfari þýðingu. Þegar allt leikur í lyndi, friður ríkir og flutningskeðjur eru allar opnar og óraskaðar þá er eins og fáir sýni því skilning að matvælaöryggi er stórmál fyrir þjóðaröryggi. En þegar átök brjótast út og allar þessar aðfangakeðjur raskast og þegar órói verður á mörkuðum og verð hækkar þá er tími til þess að minna á mikilvægi þessa grundvallarþáttar.