Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

vistmorð.

483. mál
[15:12]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (P):

Virðulegi forseti. Hugtakið fordæmaleysi varð landanum afar hugleikið fyrir tveimur árum. Við tókum höndum saman í ógnandi og ókunnugum aðstæðum, ekki bara hér innan lands heldur um allan heim, og flest gerðum okkar besta þótt sum hafi reyndar stolist til að kíkja í partí stuttu fyrir jól þrátt fyrir fjöldatakmarkanir. Jú, fordæmalaust. Þetta er gott hugtak. Við gætum notað það um fleira. Heimurinn allur stendur til að mynda frammi fyrir fordæmalausum afleiðingum skammsýni mannkyns; loftslagshamförum, búsvæði dýra um allan heim eru að leggjast í eyði, þurrkatímabilunum fjölgar, yfirborð sjávar hækkar, jöklarnir bráðna, það verður sífellt hlýrra og hlýrra, náttúruspjöll af nánast óhugsandi stærðargráðu eru framin á hverjum einasta degi af stórfyrirtækjum, nú eða bara opinberum aðilum um heim allan. Vistfræðilegum stöðugleika stendur ólýsanleg ógn af yfirvofandi útdauða tegunda. Það er alltaf okkur að kenna. Það er mannskepnan sem veldur þessu.

Það skrýtnasta er þó að ég þarf ekkert að segja ykkur þetta, við vitum þetta öll og það er nánast óþarfi að tíunda stöðu mála upp á nýtt. Það sem er eiginlega undarlegast við þessar hamfarir hlýtur að vera það sem ekki er hægt að kalla annað en fordæmalausa firringu ráðamanna um heim allan. Þá skiptir engu hvort um er að ræða stjórnmálamenn, olíubaróna eða bara stjórnendur stórfyrirtækja sem sitja oftar en ekki á bak við andlitslausa grímu fyrirtækis. Fyrirtækið gerir eitthvað en það er alltaf einstaklingur á bak við sem velur leið skammsýninnar. Þessu fordæmalausa ástandi hefði verið hægt að afstýra fyrir löngu með réttum ákvörðunum og sem betur fer er enn hægt að koma í veg fyrir verstu afleiðingarnar.

Faraldurinn var fordæmalaus upplifun, það er alveg satt, en þar fundum við fyrir því hversu einfalt það getur verið fyrir valdafólk að grípa til áhrifaríkra aðgerða í stað þess að bora í nefið og láta eins og allt sé með felldu. Ólíkt fordómaleysi faraldursins hins vegar skortir heimsbyggðina enn verkfæri til að takast á við stærstu krísurnar, sem við stöndum frammi fyrir, á áhrifaríkan hátt. Þetta eru krísur sem teygja sig langt út fyrir mörk þess sem einstaka ríki geta tekist á við. Okkur skortir enn leiðir til þess að gera valdamikið fólk ábyrgt fyrir áhrifunum sem það getur haft á jörðinni. Nánast gervallur stjórnmálaheimurinn virðist staðráðinn í að líta undan þegar loftslagshamfarir berast í tal, eins og vandamálið hverfi bara við það að við látum eins og það sé ekki til, eins og hér sé bara um að ræða eitthvert ímyndað skrímsli undir rúminu.

Hvernig getur Ísland verið öðrum ríkjum til fyrirmyndar í loftslagsmálum? Hvernig getum við sýnt frumkvæði og vilja í verki? Það er kannski rétt að nefna að við stöndum okkur ekki einu sinni nógu vel í mestu grundvallaratriðunum þegar kemur að markmiðunum sem ríkisstjórnin setur Íslandi, t.d. um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, svo við þurfum að spýta í lófana. En til að takast á við stór og ný vandamál þarf mörg verkfæri og það þarf ný verkfæri. Eitt af þeim áhrifameiri er samt frekar einfalt og vel þekkt þó að það sé kannski ekki notað nógu oft. Það heitir bara ábyrgð. Ein auðveldasta breytingin til að knýja fram hugarfarsbreytingu hjá ráðamönnum, hjá valdafólkinu, er að viðurkenna persónulega ábyrgð þeirra á þeim ákvörðunum sem þeir taka fyrir hönd alþjóðlegra stórfyrirtækja eða stjórnvalda eða hvar það er sem þeirra ábyrgð liggur.

Um þessa hugmynd hefur á síðustu árum vaxið hreyfing, utan um það að viðurkenna hugtakið vistmorð sem alþjóðlegan glæp. Við erum eitt af löndunum sem þýðir þetta yfir á tungumálið okkar þannig að önnur lönd skilja það ekki, en í flestum löndum heitir vistmorð „ecocide“. Ef fólk fer að gúgla þetta er auðveldara að finna það þannig. Vistmorð er formlega skilgreint sem ólögmæt eða gerræðisleg athöfn sem framkvæmd er þótt vitað sé að athöfnin gæti haft alvarleg og víðtæk eða langvarandi umhverfisspjöll í för með sér. Þetta eru allra, allra stærstu umhverfisspjöllin, en þetta eru líka þau umhverfisspjöll sem enginn sætir oftast ábyrgð fyrir vegna þess að regluverkið vantar. Kallað hefur verið eftir lagalegum úrræðum fyrir almenning til að sækja rétt sinn gagnvart aðilum sem með athöfnum eða athafnaleysi sínu bera ábyrgð á þessum stærstu spjöllum og formleg viðurkenning vistmorðs myndi einmitt svara þeirri þörf. Tilgangurinn með hugtakinu er að tryggja réttarstöðu náttúrunnar svo einstaklingar geti tekið að sér að berjast fyrir réttlæti í þágu náttúrunnar, í þágu jarðarinnar og í þágu sameiginlegrar framtíðar okkar allra.

Ef íslensk stjórnvöld ætla að vera leiðandi á sviði umhverfis- og loftslagsmála liggur beint við að við sammælumst um að Ísland beiti sér fyrir því að vistmorð verði viðurkennt sem brot á alþjóðalögum sem falli undir Alþjóðlega sakamáladómstólinn og að leggja jafnframt til hér á Alþingi að bæta vistmorði inn í íslenska refsilöggjöf. Þannig getum við lagt okkar lóð á vogarskálarnar til að tryggja jörðinni fullnægjandi lagalega vernd. Við værum heldur ekki ein á báti, sambærilegar tillögur eru til umræðu í um 20 ríkjum þessa dagana. Finnland bættist í hópinn núna í síðustu viku þegar lögð var fram þingsályktunartillaga á finnska þinginu. Svo má nefna Belgíu sem það land sem er komið einna lengst í þessari vegferð. Þar samþykkti þingið tillögu sem er sambærileg þeirri sem ég mæli hér fyrir undir lok síðasta árs og heldur verkinu áfram. Nú eru þau komin með frumvarp í hendurnar til að festa þetta í landslög.

Ungmennasamtök, Alþjóðaþingmannasambandið auk fleiri bandalaga fyrir viðurkenningu vistmorðs hafa látið hátt í sér heyra og beitt sér fyrir því að hugtakið verði tekið alvarlega um heim allan. En það vekur kannski athygli að baráttan fyrir þessari viðurkenningu á vistmorði hefur verið leidd af ríkjunum sem standa næst alvarlegustu afleiðingum þeirra fordæmalausu tíma sem við lifum. Þetta eru ríkin sem eru hreinlega að berjast fyrir tilveru sinni, tilveru sem m.a. loftslagsbreytingar ógna. Þetta eru ríki eins og Vanúatú og Maldíveyjar sem gætu hreinlega horfið af yfirborði jarðar á þessari öld ef ekkert er að gert. Okkur ætti að þykja sjálfsagt mál að sýna þeim samstöðu, að standa með þeim.

Forseti. Við erum stödd á fordæmalausum tímum og stöndum frammi fyrir einhverjum allra mikilvægustu ákvörðunum sem mannlegt samfélag hefur nokkru sinni þurfti að taka og vonandi þeim alvarlegustu sem við þurfum nokkurn tímann að taka. Þegar öllu er á botninn hvolft þá fellur það í okkar skaut sem kjörinna þingmanna hér í dag að horfast í augu við erfiðu staðreyndirnar, ógnirnar sem verða áþreifanlegri og víðtækari með hverjum deginum sem líður, og bregðast við þeim á hátt sem gerir okkur kleift að tryggja framtíðaröryggi þjóðarinnar og heimsins alls. Þegar allt kemur til alls þá er það ekki undir neinum öðrum komið en okkur með því að samþykkja þessa þingsályktunartillögu og með því að standa svo við stóru orðin. Þegar kemur að því að berjast fyrir umbótum á alþjóðavísu og gera innihald tillögunnar að landslögum getum við sýnt heiminum að valdi fylgir ábyrgð. Við getum sýnt heiminum að við deyjum ekki ráðalaus heldur höfum dug og þor til að grípa í taumana þegar svo mörg líta undan eins og ekkert hafi í skorist. Við getum sýnt fordæmi, lífsnauðsynlegt fordæmi, sem gæti orðið til þess að enn fleiri þjóðir gangi í lið með okkur til að tryggja að hægt sé að gera hin valdamiklu ábyrg fyrir afleiðingum gjörða sinna. Vonandi getum við sammælst um að yfirstíga flokkslínur í umhverfismálum til framtíðar og reyna að ná þverpólitískri sátt um umhverfis- og loftslagsmálin. Það held ég að endurspeglist að hluta til í því að við erum fulltrúar helmings flokka á Alþingi sem stöndum að þessari tillögu. Það eru fjórir flokkar, þeir fjórir flokkar sem sýndu einmitt mestan metnað þegar ungir umhverfissinnar mátu stefnu okkar fyrir síðustu kosningar, sem standa að þessari tillögu. En sátt þvert á pólitísku flokkana skiptir máli því að raunveruleikinn sem blasir við okkur spyr ekki um pólitík, ekki aðeins nútíðin heldur framtíðin sömuleiðis er í húfi. Ráðamönnum heimsins ber skylda til að standa vörð um náttúruna og jörðina. Það er gert fyrir náttúruna sjálfa, það er fyrir jörðina sjálfa og það er fyrir komandi kynslóðir.

Ætli ég mælist ekki til þess að þetta mál gangi til allsherjar- og menntamálanefndar að lokinni fyrri umræðu.