Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 20232027.

513. mál
[15:26]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér í dag fyrir nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2023–2027. Tillagan byggir á 5. gr. laga um opinber fjármál hvar segir að ráðherra skuli leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun til næstu fimm ára hið skemmsta. Alls bárust 26 umsagnir við málið og komu 18 þeirra aðila fyrir nefndina. Eins og kemur fram í nefndarálitinu höfum við fjallað um málið á fjölmörgum fundum eftir að því var vísað til nefndarinnar í mars.

Allnokkrar breytingar hafa orðið í efnahagshorfum frá því að fjármálaætlun fyrir árin 2022–2026 var samþykkt fyrir um ári síðan. Áætlunin hefur nú verið uppfærð miðað við nýjustu hagspá Hagstofu Íslands og fjallar í meginatriðum um efnahagslega framvindu og hagstjórnarlegt hlutverk hins opinbera. Gert er ráð fyrir að útgjöld verði að meðaltali 37 milljörðum hærri hvert ár tímabilsins miðað við verðlag ársins 2022, eða samtals um 148 milljarðar kr. Breyting á málefnasviðum milli áætlana rennur að mestu til heilbrigðismála og þar vega þyngst aukin framlög til framkvæmda við nýjan Landspítala. Aukin áhersla er á nýsköpun sem sést í því að framlög eru aukin árlega um 10–11 milljarða frá fyrri áætlun.

Virðulegi forseti. Það sýnir sig nú að þær ráðstafanir sem gripið var til vegna þess efnahagsáfalls sem hlaust af heimsfaraldrinum skiluðu þeim árangri sem til var ætlast. Útgjaldaaukning ríkissjóðs og hallarekstur hafa skilað þeim árangri að efnahagsbúskapur þjóðarinnar hefur tekið hratt við sér. Allar helstu mælingar sýna svo að ekki verður um villst að tekist hefur að beita ríkisfjármálum til verndar heimilum og fyrirtækjum. Að öðrum kosti væri viðspyrnan ekki jafn kröftug. Á sama tíma og efnahagslífið tekur við sér eftir heimsfaraldur kórónuveiru, og hagvöxtur sem og atvinnuhorfur eru með ágætum, veldur stríðið í Úkraínu óvissu vegna verðhækkana á hrávörumörkuðum. Þetta hefur breytt efnahagsforsendum frá því í byrjun árs. Verðbólgan er helsta ógnin og áskorunin sem efnahagslífið þarf að takast á við um þessar mundir. Fyrirséð er að þessar aðstæður muni hafa töluverð áhrif á tekjur og útgjöld ríkissjóðs. Þegar litið er á tekjuhlið ríkissjóðs hafa talsverðar sveiflur átt sér stað á liðnum árum, annars vegar á skattkerfinu sjálfu og hins vegar á skatttekjunum sem þessir skattar hafa skilað. Utanaðkomandi þættir eins og fall WOW air og heimsfaraldur kórónuveiru í kjölfarið ollu skerðingu skatttekna. Á liðnu kjörtímabili var sérstök áhersla lögð á að létta skattbyrði á tekjulága einstaklinga á sama tíma og skatttekjur jukust samhliða vexti hagkerfisins. Þá hafa skatttekjur af ökutækjum og eldsneyti lækkað talsvert með tilkomu fleiri rafbíla.

Þær efnahagsaðgerðir sem stjórnvöld réðust í ásamt þróttmiklu atvinnulífi hafa gert samfélaginu kleift að ná kröftugri viðspyrnu þar sem skatttekjur ríkisins nálgast sögulegt meðaltal. Tekjustofnar nálgast því fyrri styrk fyrr en gert var ráð fyrir. Nýlega var ráðist í mótvægisaðgerðir vegna aukinnar verðbólgu sem munu draga úr áhrifum hennar á lífskjör viðkvæmustu hópa samfélagsins. Í þeim fólst hækkun bóta almannatrygginga, sérstakur barnabótaauki og hækkun húsnæðisbóta.

Á hinni hlið peningsins má finna útgjöld ríkissjóðs. Í tíð síðustu ríkisstjórnar jukust útgjöld og fjárfestingar hratt samhliða þeim úrbótum sem ráðist var í á kjörtímabilinu. Útgjöld til heilbrigðismála, félags-, húsnæðis- og tryggingamála, rannsókna, þróunar og umhverfis- og loftslagsmála voru stóraukin á tímabilinu, svo einhver dæmi séu nefnd. Nú blasir við nýr veruleiki þar sem draga þarf úr spennu í hagkerfinu til að verja kaupmátt og ráðstöfunartekjur. Þar má hið opinbera ekki láta sitt eftir liggja. Í fjármálaáætlun þessari má sjá áframhaldandi vöxt ríkisútgjalda en talsvert hægari vöxt en verið hefur undanfarin ár. Í því felst ákveðið aðhald sem kallar á skýra forgangsröðun útgjalda á komandi árum. Á þeim tveimur mánuðum sem liðnir eru frá því að tillagan var lögð fram hafa efnahagshorfur breyst talsvert miðað við forsendur í þjóðhagsspá Hagstofu Íslands sem liggur til grundvallar þingsályktunartillögunni. Efnahagsforsendur fjármálaáætlunar voru gefnar út í lok mars þegar ekki var enn ljóst hver efnahagsáhrif af stríði í Úkraínu yrðu. Þær breytingar sem um ræðir endurspeglast í nýrri hagspám annarra aðila, m.a. Seðlabanka Íslands. Þar vegur þyngst að gert er ráð fyrir meiri verðbólgu og minna atvinnuleysi. Sérstaklega er gerð grein fyrir þeirri þróun í nefndarálitinu. Á sama tíma og efnahagslífið tekur við sér eftir heimsfaraldur kórónuveiru og hagvöxtur sem og atvinnuhorfur eru með ágætum veldur stríðið í Úkraínu óvissu að ýmsu leyti, m.a. vegna verðhækkana og ýmissa afleiddra aðstæðna. Þetta hefur breytt efnahagsforsendum frá því í byrjun árs. Viðbúið er að verðbólga muni auka tekjur ríkissjóðs til skamms tíma, enda eru stærstu skattstofnar ríkisins tengdir þróun verðlags, t.d. virðisaukaskattur á neysluvörur og tekjuskattur á launatekjur. Sömu sögu má segja um útgjaldahliðina í ljósi þess að stór hluti útgjalda ríkisins hefur einhverja tengingu við verðbólgu. Það leiðir til þess að ólíklegt er að verðbólga hafi veruleg áhrif á afkomu ríkissjóðs nema innan ársins þegar hún fellur til.

Meiri hluti fjárlaganefndar hvetur sérstaklega til þess að horft verði til aðgerða sem miðast að því að verjast verðbólgu og versnandi viðskiptahorfum, ekki hvað síst til varnar fyrir þá hópa sem minna hafa á milli handanna.

Samkvæmt nýjustu mælingum Hagstofu Íslands nemur ársbreyting á vísitölu neysluverðs nú um 7,6%. Þetta er hæsta mæling á ársbreytingu vísitölunnar frá vormánuðum 2010, en þá nam hún um 8,6%. Helstu hækkanir á vísitölunni í síðustu mælingu má finna í matvöru og drykkjarvöru, húsnæðiskostnaði, verði á nýjum bílum og í verði á bensíni og olíu. Flestir greiningaraðilar áætla að verðbólga haldist há fram eftir árinu, eða a.m.k. fram á haust. Þó er reiknað með því að verðbólga verði einnig nokkuð þrálát á næsta ári og verði í kringum 5%. Verðbólga mun því ekki byrja að lækka og nálgast verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands fyrr en árið 2024. Seðlabanki Íslands hefur eins og við þekkjum brugðist við verðbólgu með verulegum hækkunum á meginvöxtum bankans, úr 2,0% í 3,75% frá áramótum. Í hagspám helstu greiningaraðila er að meðaltali gert ráð fyrir að hagvöxtur verði tæplega 5% í ár. Ekki verður annað séð að svo stöddu en það muni ganga nokkurn veginn eftir. Hagvöxtur á eftir að aukast enn frekar fram eftir ári þegar ferðamenn taka að streyma til landsins. Greiningaraðilar spá því að fjöldi ferðamanna í ár verði á bilinu 1,4–1,7 milljónir manna.

Virðulegi forseti. Fjármálaætlun þessi byggist á árangursríku stjórnarsamstarfi sem staðið hefur frá árinu 2017. Á þeim tíma hafa útgjöld til helstu málaflokka velferðar og menntamála verið stóraukin. Á sama tíma hefur verið ráðist í sókn á sviði nýsköpunar og rannsókna og í fjárfestingar í innviðum samfélagsins sem tryggja framtíðarhagvöxt og samkeppnishæfni íslenskrar þjóðar. Ef skoðuð er tíu ára þróun útgjaldaheimilda, frá árinu 2017 til loka tímabilsins þessarar þingsályktunartillögu, hafa heildarfjárheimildir frá árinu 2017 á verðlagi ársins 2022 til ársins 2027 hækkað um 362 milljarða eða 40% að raungildi á þessum tíu árum. Ef skoðuð er heildarhækkun rammasettra útgjalda, sem sýna útgjaldaþróun án vaxtagjalda, lífeyrisskuldbindinga og atvinnuleysistrygginga, á tímabili áætlunarinnar nemur hún rúmum 47 milljörðum frá 2023 til 2027. Í fjárhæðum talið hækka framlög til málefna aldraðra næstmest eða um 13 milljarða. Framlög til málefnasviða nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina hækka um 3,6 milljarða en lækkanir á ákveðnum málefnasviðum á tímabilinu skýrast í langflestum tilfellum af sveiflum í fjárfestingarútgjöldum. Af lækkunum munar mest um framlög til samgöngumála sem skýrast af því að sérstakt fjárfestingarátak til að vega á móti áhrifum heimsfaraldurs fellur niður á tímabilinu. Áætlað er að rammasett útgjöld aukist að raungildi um 292 milljarða á tímabilinu, það er 37% hækkun á tíu árum. Í fjárhæðum talið hækka framlög til sjúkrahúsþjónustu mest eða um 40,6 milljarða. Skýrist það af raunvexti til reksturs Landspítala og nýbyggingar spítalans. Málefni aldraðra hækka um 33 milljarða og gert ráð fyrir töluverðri fjölgun aldraðra á tímabilinu auk kaupmáttaraukningar ellilífeyris. Framlög í varasjóð hækka um 32,6 milljarða í samræmi við markmið laga um opinber fjármál og framlög til örorkubóta og málefna fatlaðs fólks um tæplega 32 milljarða. Framlög til heilsugæslu og annarra heilbrigðismála utan sjúkrahúsa hækka um tæplega 22 milljarða og um 17,5 milljarða til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina. Lyf og lækningavörur hækka um tæplega 14 milljarða, framlög til háskóla um rúmlega 11 milljarða og til hjúkrunarþjónustu um 11 milljarða Hlutfallslega er mesta hækkunin á varasjóði fjárlaga enda var hann mjög veigalítill í byrjun tímabilsins.

Forseti. Samkvæmt 13. gr. laga um opinber fjármál ber fjármálaráði að leggja fram mat og álitsgerð um fjármálaáætlun. Mat ráðsins á stefnumörkun og áætlanagerð opinberra fjármála er mikilvægt tæki fyrir umfjöllun um stefnu stjórnvalda hverju sinni. Í nefndarálitinu drögum við fram helstu atriði þar sem fjármálaráð er með ábendingar til okkar nefndarmanna sem við höfum verið að ræða bæði undanfarin ár og núna og höldum áfram og reynum að taka okkur til fyrirmyndar og fá Stjórnarráðið að sjálfsögðu í lið með okkur og fjármálaráðuneytið ekki síst. Meiri hlutinn tekur undir margt af því sem fram kemur í álitinu. Fjallað er sérstaklega um mikilvægi fjárfestinga undir málefnasviði um samgöngur og fjarskipti. Brýnt er að móta verklag og mælikvarða til að bera saman fjárfestingarvalkosti og gera sérstaklega grein fyrir verklaginu og forgangsröðun í áætluninni. Sömuleiðis tekur meiri hlutinn undir þau sjónarmið að í uppsveiflu í hagkerfinu, eins og nú standi yfir, sé mikilvægt að ríkisfjármálastefna sé í takt við peningastefnu með hófsömu aðhaldi í stað þess að vera þensluhvetjandi eins og hætt er við þegar tekjur ríkisins aukast vegna aukinna umsvifa í hagkerfinu. Með öðrum orðum; nú er kannski ráð að spara.

Þá er í nefndaráliti að finna útlistun á þeim verkefnum sem meiri hlutinn telur brýn og leggur áherslu á. Mikilvægt er að skerpa á á forgangsröðun verkefna innan fjárhagsramma í stað þess að stöðugt sé óskað eftir auknum fjármunum fyrir ný verkefni. Endurskoðun núverandi útgjalda þarf að efla. Dæmi um slíka eflingu og vilja ríkisstjórnarinnar til að gera stjórnsýslu á Íslandi markvissari og skilvirkari eru þær breytingar sem ráðist var við Stjórnarráð Íslands með tilliti til endurröðunar verkefna innan ráðuneyta og í skiptingu ráðuneyta. Meiri hlutinn leggur áherslu á nauðsyn þess að rekstur hins opinbera verði hagkvæmari, að aukin samfella og samstarf á milli ráðuneyta sé lykillinn að bættri nýtingu fjármuna.

Vel tókst til við þróun á stafrænum lausnum í samstarfi við Stafrænt Ísland á liðnu kjörtímabili. Slíkar fjárfestingar eru dæmi um leið að bættri þjónustu sem gæti á sama tíma skapað hagræði í opinberum rekstri til frambúðar. Það er því mikilvægt að aðhald í ríkisrekstri á næstu árum dragi ekki úr hvata til stafrænnar þróunar í opinberri þjónustu heldur ýti undir hana sem leið til að nýta betur þá fjármuni sem varið er í þjónustuna. Nýta þarf eignir hins opinbera betur, sérstaklega land í opinberri eigu. Skortir verulega á innleiðingu þeirrar stefnu sem þó hefur verið mörkuð. Þá er meiri hlutanumskýrslu áfram um að innleitt verði að fullu verklag á grundvelli eigendastefnu og lagaramma um útboð og nýtingu landsvæða sem er til þess fallið að efla enn framtíðarvöxt og tækifæri. Leggur meiri hlutinn áherslu á að unnið verði með mun markvissari hætti að samþættingu til að rjúfa ákveðna stöðnun í ýmsum þáttum innviða. Það snýst ekki alltaf allt um aukna fjármuni til verkefna á vettvangi hins opinbera heldur um það að beita réttum aðferðum og hvötum til að laða fram sókn á sviði innviða sem samfélagið hefur tæplega efni á að byggja ekki upp.

Virðulegi forseti. Í nefndaráliti þessu er að finna umfjöllun meiri hluta nefndarinn um helstu málefnasvið. Ég ætla að stikla á stóru, enda tíminn takmarkaður, og draga fram helstu atriði. Í fjármálaáætlun er boðuð endurskoðun á skattlagningu á umferð og ökutæki. Eins og ég sagði í byrjun hefur orðið veruleg eftirgjöf tekna af ökutækjum. Skattleysi á afnotum af vegakerfi landsins er orðið verulegt ef miðað er við fyrra fyrirkomulag skattlagningar. Að mati meiri hlutans verður við endurskoðun skattlagningar að tengja saman rétta hvata og styðja við orkuskipti og markmið um minni losun gróðurhúsalofttegunda. Sömuleiðis er mikilvægt að réttir hvatar séu til staðar við fjölbreyttari fjármögnun samgöngumannvirkja og þetta er sagt í ljósi þess að ekki verður horft fram hjá því mikið lengur að ef ökutæki greiða ekki fyrir afnot af vegum kemur það niður á viðhaldi veganna. Meiri hlutinn leggur til að við breytta skattlagningu verði þyngd ökutækis eitt af því sem horft verður til enda slíta þyngri ökutæki langmest samkvæmt Vegagerðinni. En við leggjum líka mikla áherslu á það að það þurfi að gæta að jafnræði við skattlagninguna. Þegar í næstu fjárlögum verða að liggja fyrir breytingar sem endurspegla notkun ökutækja á vegakerfinu.

Meiri hlutinn telur fjárfestingu í samgöngumannvirkjum vera mjög arðsama til lengri tíma. Slíkri fjárfestingu er einnig hægt að beita sem ákveðnu efnahagsstjórnartæki og horfa til framkvæmda á þeim svæðum sem eru „kaldari“ og þar sem er minni framleiðsluspenna. Minni framkvæmdir, eins og tengivegaframkvæmdir, og aðgerðir til að bæta umferðaröryggi, eru oftar en ekki mannaflsfrekar. Í þessari fjármálaáætlun er fest í sessi átak í endurbyggingu á tengivegum. Jafnframt liggja fyrir metnaðarfull og góð markmið um uppbyggingu samgöngumannvirkja á höfuðborgarsvæðinu með sögulegu samkomulagi sveitarfélaga og stjórnvalda.

Stjórnvöld hafa lagt sérstaka áherslu á nýsköpun og varið gífurlegum fjármunum í rannsóknarsjóði, endurgreiðslur, hvata og stuðningsnet. Áhersla hefur verið lögð á loftslagsmál, heilbrigðismál og jafnréttismál umfram aðra þætti þó að allt sé að sjálfsögðu undir. Áhersla stjórnvalda á nýsköpun og stuðning hefur stutt við sókn til aukinnar verðmætasköpunar. Gríðarlegur vöxtur í útflutningi hugvits og fjölgun starfa er grunnur að framtíðarhagvexti. Samhliða er nauðsynlegt að greina ávinninginn af endurgreiðslum betur og greina hindranir á markvissan hátt til að fjármagnið nýtist sem best. Það höfum við sett af stað í fjárlaganefnd og reyndar atvinnuveganefnd einnig að einhverju leyti.

Nefndin hvetur til þess að opinberar stofnanir nýti þær tæknilausnir sem spretta úr stuðningskerfi hins opinbera. Dæmi eru um að nágrannaþjóðir okkar kaupi þjónustu íslenskra nýsköpunarfyrirtækja, t.d. í heilsutækni, en hún sé ekki nýtt hér á landi. Hvetja þarf hið opinbera til að nýta innlendar lausnir sem það hefur fjárfest í og byggt upp. Í þessu samhengi er vert að benda á að fjárfesting ríkisins í stafrænum lausnum jafnar aðgengi landsmanna að ríkisvaldinu og sparar útgjöld. Áætlað er að árlegur sparnaður hins opinbera af slíkum fjárfestingum verði um 9 milljarðar á ári.

Forseti. Þær atvinnugreinar sem hafa lengst af verið burðarásar í okkar atvinnulífi ásamt ferðaþjónustunni búa allar við það að framlög til rannsókna hafa gefið verulega eftir á undanförnum áratugum. Samkeppnissjóður er gott tæki til að laða fram krafta í rannsóknum, fjármagn og fólk. En langtímarannsóknir, þ.e. vöktun og mælingar á mörgum grundvallaratriðum sem falla illa að samkeppnissjóðum, eru samt grundvöllur að mörgum rannsóknar- og þróunarverkefnum. Meiri hlutinn ítrekar að auknir fjármunir til samkeppnissjóða eru mikilvægir en að sama skapi verður að forgangsraða fjármunum til rannsóknarstofnana á sviði ferðaþjónustu, hafrannsókna, landbúnaðar, byggingarfræði og jarðvísinda. Jarðhræringar og náttúruvá eru til viðbótar við framangreinda þætti, sem kalla mætti rannsóknir atvinnuvega, og er svið sem leggja þarf meiri áherslu á. Meiri hlutinn beinir því til ríkisstjórnarinnar að unnið skuli að því þvert á ráðuneyti málaflokkanna að marka stefnu um grundvallarrannsóknir á þessum sviðum og um fjármögnun þeirra.

Meiri hlutinn fagnar vinnu matvælaráðherra að því er snertir aðgerðir og skilgreiningu á fæðuöryggi landsmanna. Verulegar ógnir blasa nú við matvælaframleiðslu og blikur eru á lofti vegna hækkana á hrávöruverði. Viðbúið er að á næstunni muni framboð matvæla dragast saman vegna þessa. Líkur eru á að skortur verði viðvarandi næstu misseri. Þessi þróun mun hafa veruleg áhrif á lífskjör almennings, sem verja þarf stærri hluta tekna sinna til matarkaupa. Með skorti og ógnvænlegri hækkun á verði aðfanga er ástand búvöruframleiðslu afar brothætt. Ljóst er að ekki er hægt að velta öllum kostnaðarhækkunum yfir á neytendur. Meiri hlutinn minnir á að í fjárlögum fyrir þetta ár voru lagðar til um 750 milljónir til að mæta aðfangahækkun á áburði. Meta þarf markvisst hvort og hvernig er hægt að styðja við frumframleiðendur til að halda getu og vilja til framleiðslu. Meiri hlutinn telur það ekki eingöngu vandamál bænda og afurðastöðva að takast á við þennan vanda. Vinna þarf á mun breiðari grundvelli til að halda utan um matvælaframleiðslu í landinu, bæði til að efla og bæta fæðuöryggi og verja byggð. Landbúnaður er grundvallarþáttur í loftslagsmálum og mikilvægt að treysta framþróun íslensks samfélags með jafnvægi í samlífi manns og náttúru. Sterkar vísbendingar eru um að sækja megi með landbúnaði með öflugum rannsóknum á sviði landbúnaðar og landnytja meiri árangur í loftslagsmálum. Aukin innlend grænmetisframleiðsla sem dregur úr innflutningi, bætt nýting og meðhöndlun áburðar og bætt fóðrun búfjár styður við þá þróun og dregur úr neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga af mannavöldum. Til þess að sækja megi fram með grænni og loftslagsvænni landbúnaði er mikilvægt að hafa skýra sýn og markmið.

Sjávarútvegur er ein af burðarstoðum efnahagslífs og byggðar í landinu. Mikilvægt er að treysta greinina á sama tíma og litið er til framtíðar. Það er sameiginlegt verkefni stjórnvalda og sjávarútvegsins að umgjörð greinarinnar byggist á sjálfbærni. Sérstaklega er tilgreint í stjórnarsáttmála að byggja þurfi áframhaldandi vinnu á skýrslu starfshóps fjármála- og efnahagsráðherra, Græn skref í sjávarútvegi, til að standa megi betur við sett markmið í loftslagsmálum. Eins og áður segir eru hafrannsóknir grundvöllur að nýtingu nytjastofna sjávar. Stofnmælingar og aðrar rannsóknir á hafinu eru því grundvallarmál. Með nýju rannsóknarskipi hafa opnast enn fleiri tækifæri til aukinnar vöktunar og mælinga. Mikilvægt er að tryggja sem besta nýtingu á mannafla og tækjum til rannsókna á þessu sviði. Rannsóknir styðja enn fremur við græn umskipti í sjávarútvegi og mikilvægt að styðja og efla náttúruvernd og orkuskipti með samdrætti í losun og með grænni fjárfestingu. Í kjölfar stríðsreksturs Rússa í Úkraínu hefur fiskverð hækkað umtalsvert með tilheyrandi tekjuaukningu til handa sjávarútvegsfyrirtækjum, bæði í útgerð og fiskeldi. Nefndin vill koma því á framfæri að bætt afkoma í greininni mun skila hærri veiðigjöldum og beinir því til ríkisstjórnar, í ljósi stöðu ríkissjóðs til næstu ára, að óhjákvæmilegt sé að mat verði lagt á möguleikana til frekari tekjuöflunar sé þess þörf. Jákvæð hagræn áhrif fiskeldis aukast ár frá ári. Mikilvægt er að mati meiri hlutans að hugað verði sérstaklega að sóknartækifærum í fiskeldi til frekari verðmætasköpunar með auknum rannsóknum og eftir atvikum með breytingum á reglum í kjölfar aukinnar þekkingar og reynslu undanfarinna ára. Brýnt er að stjórnvöld tryggi að allar ákvarðanir um starfsumhverfi fiskeldis byggist á vísindalegum rannsóknum á vistkerfi nytjastofna, lífríki þeirra og umhverfi.

Virðulegi forseti. Ferðaþjónusta er sú atvinnugrein sem vaxið hefur hraðast á undanförnum árum. Segja má að hún hafi slitið barnsskónum sem ein helsta útflutningsgrein landsins. Allar stefnumarkandi ákvarðanir til lengri tíma verða að byggja á traustum grunni og á því hvernig ná megi meiri festu og stöðuleika í greininni, sem ætla má að myndi skila sér í aukinni verðmætasköpun til lengri tíma. Eins og áður segir tekur meiri hlutinn undir að horfa þurfi til rannsókna á sviði ferðaþjónustu og að efla þurfi slíkt starf. Þá er verulegrar uppbyggingar þörf á mörgum ferðamannastöðum og í sjálfu sér fjölbreyttar leiðir til að fjármagna og mæta þeirri uppbyggingarþörf. Hér má nefna sanngjörn notendagjöld og bílastæðagjöld. Þá mætti afla tekna með komugjöldum til landsins, sem í senn myndu styðja við ríkissjóð sem hann vex út úr núverandi efnahagsþrengingum, sem og uppbyggingu á fjölförnum ferðamannastöðum. Ég vil þannig ítreka vilja meiri hluta nefndarinnar að fyrir næstu fjárlagagerð verði fram komin aðgerðaáætlun um nýtingu þeirra leiða og um uppbyggingu á fjölsóttum ferðamannastöðum.

Í samhengi við traustar rannsóknir á jarðhræringum og náttúruvá, eins og áður segir, er mikilvægt að hafa öryggismál í víðu samhengi í lagi. Meiri hlutinn bendir á nýjar og vaxandi áskoranir sem almannavarnir og löggæsla standa frammi fyrir. Almannavarnir hér á landi hafa verið að störfum nánast stanslaust síðan í óveðrinu 2019 og tekist á við jarðhræringar, eldgos, skriðuföll og fleira sem nauðsynlegt hefur reynst að bregðast við. Þá hefur álag aukist í löggæslu með ferðamannastraumi, umferðarslysum og öðrum óhöppum, sem og stöðugri fjölgun netglæpa. Þá er það sérstaklega tekið fram að bættar rannsóknir í kynferðisafbrotamálum, aukinn málshraði og öflugri löggæsla styðja við markmið ríkisstjórnarinnar um aukna áherslu á jafnrétti og kynfrelsi. Öryggi okkar á netinu spyr þó ekki aðeins að fjölgun netglæpa, heldur líka traust fjarskipti og netöryggi. Stigin hafa verið skref markaðsaðila á fjarskiptamarkaði um frekari samnýtingu fjárfestinga. Ný lög um fjarskipti gegna þar lykilhlutverki, þar sem heimildir til samstarfs gera það mögulegt að blása til frekari sóknar. Ríkisvaldið heldur einnig á mörgum mikilvægum fjarskiptainnviðum sem geta stutt við frekari sókn. Öflug fjarskipti eru grundvöllur atvinnu og mannlífs til lengri tíma. Þá vill meiri hlutinn beina því til ríkisstjórnarinnar að nýta tekjur vegna leigu á tíðnisviðum fjarskipta sem geta numið allt að 750 milljónum, en ekki virðist tekið tillit til þeirra í þessari fjármálaáætlun, til að efla starfsemi á sviði netöryggis og fjarskipta.

Virðulegu forseti. Auknar rannsóknir á sviði orkumála eru einn af meginþáttum í orkuskiptum og loftslagsmálum og það er mikilvægt að festa þá hækkun sem gerð var vegna fjárlaga 2022 í sessi, það sama á við um fjármuni til Orkustofnunar. Í fjármálaáætlun þessari er haldið áfram að styðja við uppbyggingu dreifikerfis raforku í dreifðum byggðum. Áherslan hefur verið á að jafna kostnað vegna dreifingar og tryggja aðgengi að traustu dreifikerfi. Hér á landi hafa orkuskipti í samgöngum komist á nokkurt skrið og lögð á þau áhersla í stefnumótun ríkisstjórnarinnar. Það vekur upp mikilvægar pólitískar spurningar um aðgengi fólks og fyrirtækja að traustum tengingum við raforkukerfið og afhendingaröryggi. Verulegum fjármunum hefur verið varið til að jafna dreifikostnað en sjaldan nást markmið um jafnræði sem þó eru lögbundin. Orkuskiptin eru verkefni allrar þjóðarinnar og mikilvægt að fjármagnið og regluverkið styðji við það. Aðgengi fyrirtækja og byggðarlaga að raforku er víða hamlandi þegar kemur að búsetuöryggi og verðmætasköpun. Það er álit meiri hlutans að skoða verði alvarlega regluverk um ákvarðanatöku í orkuframleiðslu, uppbyggingu dreifikerfis og fyrirkomulag hennar. Þá leggur meiri hlutinn til að fyrirkomulag uppbyggingar á kostnaðarlíkani rafmagnsflutnings verði endurskoðað til að ná fram meiri jöfnuði á milli íbúa í landinu og minnka til lengri tíma fjárþörf ríkissjóðs til að standa undir þeirri jöfnun.

Hæstv. forseti. Þá snúum við okkur að heilbrigðis og félagsmálum. Heilbrigðisvísindum hefur fleygt fram á liðnum árum og leitt til margvíslegra nýjunga í meðferð við sjúkdómum. Ný tækni og ný lyf hafa komið fram sem skipt geta sköpum fyrir sjúklinga en í mörgum tilvikum fela nýjar meðferðir í sér stóraukin útgjöld til heilbrigðisþjónustu. Miklu skiptir að nýta tækni og nýsköpun til að veita betri þjónustu og auka skilvirkni hennar. Samhliða því þarf að leggja aukna áherslu á lýðheilsuaðgerðir, efla heilbrigði og heilsusamlegan lífstíl til að fyrirbyggja sjúkdóma. Mikilvægt er að beita viðeigandi aðgerðum til að greina frávik svo beita megi snemmtækri íhlutun og hindra sjúkdómsþróun og fylgikvilla sjúkdóma sem þegar eru til staðar. Slík lýðheilsuverkefni eru ein besta ráðstöfunin til að draga úr sívaxandi heilbrigðiskostnaði, m.a. vegna öldrunar þjóðarinnar. Meiri hlutinn bendir einnig á nauðsyn þess að stefnumörkun í heilbrigðismálum heildstæð í stað þess að einblínt sé á einstök vandamál í of ríkum mæli. Framþróun í heilbrigðismálum kallar á samstillt kerfi þar sem allar heilbrigðisstofnanir, hjúkrunarheimili og heimaþjónusta sveitarfélaga hafa hlutverki að gegna. Þannig megi best auka lífsgæði bæði eldra fólks og annarra og gera eldra fólki kleift að búa heima hjá sér lengur. Meiri hluti fjárlaganefndar fagnar nýgerðum samningum um rekstur hjúkrunarheimila og vill árétta mikilvægi þess að fylgja þeim samningum eftir og halda áfram að þróa og bæta rekstur heimilanna. Við þekkjum að uppbygging nýrra öldrunarheimila hefur tafist og mikilvægt að fjármögnun nýrra heimila og núverandi samnings haldist í hendur.

Meiri hlutinn fagnar því að í fjármálaáætlun þessari eru stigin fyrstu skrefin í átt að þeim markmiðum ríkisstjórnarinnar að einfalda örorkulífeyriskerfið og bæta kjör örorkulífeyrisþega. Mikilvægt er að sameina bótaflokka, draga úr tekjutengingum og auka möguleika til atvinnuþátttöku fyrir þau sem eiga þess kost. Mikilvægt er að tryggja góða þjónustu við fatlað fólk í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Samningurinn hefur þegar kallað á veigamiklar og mikilvægar breytingar á framkvæmd þjónustu við fatlað fólk í nútíð og framtíð sem bæta munu lífskjör þess til muna. Félags- og vinnumarkaðsráðherra hefur tilkynnt um stofnun starfshóps sem á að móta tillögur varðandi kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga vegna þess sem við þekkjum sem NPAsamninga. Við gerð næstu fjármálaáætlunar þarf að horfa til niðurstöðu þessa hóps með tilliti til fjárhagslegs bolmagns sveitarfélaganna svo að standa megi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands.

Meiri hlutinn leggur áherslu á mikilvægi þess að móta markvissa og skýra langtímastefnu í málefnum útlendinga sem stuðli að farsælli og gagnkvæmri aðlögun innflytjenda og innlendra hérlendis og komi þannig í veg fyrir að á landinu myndist jaðarsett samfélag innflytjenda. Jafnframt er lögð áhersla á þjónustuvilja opinberra aðila, hvort sem er á vegum ríkis eða sveitarfélaga, sem endurspegli það fjölmenningarsamfélag sem tekið hefur að myndast hér á landi. Það er ekki aðeins réttlætismál heldur snýr það að ríkum þjóðhagslegum hagsmunum að hér hafi fólk, óháð uppruna, tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu og á vinnumarkaði.

Að lokum er fjallað um húsnæðismál í álitinu. Það er meginmarkmið opinberrar stefnu í húsnæðismálum að tryggja húsnæðisöryggi allra landsmanna en uppsöfnuð þörf fyrir íbúðarhúsnæði er ein helsta áskorun við stjórn efnahagsmála. Í því ljósi áréttar meiri hluti fjárlaganefndar mikilvægi þess að draga úr spennu í hagkerfinu til að verja kaupmátt og ráðstöfunartekjur. Útgjaldaaukning heimilanna vegna vaxandi verðbólgu kallar á að þétt sé staðið að uppbyggingu félagslegs húsnæðis. Meiri hlutinn leggur áherslu á að fjárhagslegur stuðningur vegna húsnæðis til handa þeim sem þess þurfa verði byggður á traustum áætlunum og að markmiðum fjármálaáætlunar á gildistíma hennar verði fylgt eftir. Sérstaklega er áréttað að stutt verði við óhagnaðardrifin leigufélög og byggingarfélög sem starfa á félagslegum grundvelli hvort sem lýtur að opinberum framkvæmdum eða sjálfstæðum.

Eins og ég hef reynt að hlaupa hér á, forseti, þá hafa efnahagshorfur breyst töluvert frá því að áætlunin var lögð fram. Í breytingartillögum meiri hlutans er tekið tillit til þessa bæði á tekju- og gjaldahlið áætlunarinnar. Einnig er stefnt að því að nýta uppsveifluna í hagkerfinu til þess að draga hraðar úr halla ríkissjóðs heldur en ráð var fyrir gert, sem er í samræmi við markmið peningastefnunnar um að lækka verðbólgu með því að draga úr þenslu í hagkerfinu. Flestir tekjustofnar hækka frá framlagðri áætlun. Það er í samræmi við nýjar efnahagsforsendur og innheimtuþróun það sem af er árinu. Af einstökum sköttum vega þyngst hækkanir á áætlun virðisaukaskatts, tekjuskatts einstaklinga, tryggingagjalds og fjármagnstekjuskatts. Þrátt fyrir minni raunvöxt einkaneyslu en ætlað var er virðisaukaskattur endurmetinn til hækkunar vegna aukinnar verðbólgu og grunnáhrifa af tekjuuppgjöri síðasta árs. Helstu breytingar á gjaldahlið fjárlaga eru að hækka áætlaðar launa-, almannatrygginga- og verðlagsbætur, að vaxtagjöld hækki vegna verðbóta, sem hefur lítils háttar áhrif til hækkunar á næsta ári og því þarnæsta, en lækka eftir það, að mótvægisaðgerðir til að styðja við tekjulægri heimili vegna aukinnar verðbólgu auki útgjöld um 5–7 milljarða á ári og að lokum eru aðgerðir til að sporna við þenslu í hagkerfinu sem farið var yfir hér áður. Á móti vega nokkrar aðrar breytingar, t.d. er áætlað að útgjöld aukist vegna aukins fjölda flóttamanna á þessu ári og á næsta ári. Þá vegur á móti lækkun gjalda vegna lægra atvinnuleysis um samtals 7 milljarða svo fátt eitt sé nefnt. Samtals nema þessar breytingar á bilinu 1–3 milljörðum á ári til lækkunar. Að öllu samanlögðu nema gjaldabreytingar málefnasviða um 75 milljörðum til hækkunar á tímabili áætlunarinnar. Gert er ráð fyrir að heildarafkoma ríkissjóðs batni um sem nemur 30 milljörðum á næsta ári og ríflega 20 milljörðum árin þar á eftir.

Virðulegi forseti. Ég lýk hér með máli mínu og legg til að tillögur meiri hlutans verði samþykktar með þeim breytingum sem skýrðar eru í nefndaráliti hans og gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Ég vil líka nefna að það er rangt í áliti meiri hlutans hér á bls. 16, 5. tölulið, um helstu breytingar á gjaldahlið varðandi aukinn fjölda flóttamanna og gjöld þess vegna, þar sem talað er um 2 milljarða hvort ár fyrir sig, en það er sem sagt yfirstandandi ár og næsta ár, ekki 2023 og 2024.