Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[16:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég segi enn og aftur: Stjórnarsáttmálinn er eitt, svo er ríkisfjármálaáætlunin annað. Við þurfum að hafa það í huga að eins og hv. þingmaður var akkúrat að nefna þá koma yfirmarkmiðin fram í áætluninni, önnur markmið, þ.e. hvernig við ætlum að ná þeim, og þá líklega mælanleikinn einna helst, það ætti að koma fram í aðgerðaáætlun sem fylgir einmitt því sem hv. þingmaður var að nefna og snýr að loftslagsmálunum. En ég tek aftur undir það með hv. þingmanni að ég er sammála því að við getum gert þetta skýrar. Við getum gert þetta ítarlegar án þess endilega að vera með — hvað á ég að segja, því að við kvörtum dálítið oft yfir því að það sé séu of mörg orð um það sama aftur og aftur og það sé hægt að orða hlutina með skarpari og skýrari hætti. Við höldum áfram að beita okkur í því. Ég er ekki búin að gleyma því að við ætlum að funda um það að reyna að takast á við þetta verkefni af því að ég held að það sé mikilvægt fyrir okkur öll og líka fyrir þá sem eiga að fjalla um þetta úti í bæ.