Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[16:06]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég vil kannski fyrst segja varðandi það hvort tekjustaða ríkissjóðs sé góð að ástæðan fyrir því sem við erum að leggja til hér er að hluta til sú að við teljum að það þurfi að auka við tekjur ríkissjóðs og það kemur fram í breytingartillögum okkar núna við gerð þessarar áætlunar. Við áréttum það líka, eins og ég veit að hv. þingmaður hefur bæði lesið og tekið eftir, að við teljum ástæðu til að horfa í fleiri áttir og bendum á það í áliti okkar, sem er ekki partur af tillögunum sem koma fram núna, en við teljum að það sé vert að vera á varðbergi og horfa til þess að það gæti þurft að auka tekjurnar enn frekar og við bendum á atriði í því.

Varðandi það hvort heilbrigðiskerfið sé fullfjármagnað þá ég get ég auðvitað ekki sagt að ráðherrarnir tveir séu að segja ósatt, ekki frekar en ég get sagt að þeir sem koma til okkar í heimsókn séu að segja okkur ósatt. Þess vegna er mjög mikilvægt að við förum betur yfir ákveðnar tölur og ekki síst núna fyrir fjárlagagerðina að mínu mati. Við erum með ansi góða samantekt frá því í fyrrasumar þar sem tekin voru saman mjög mörg gögn og breytur, sérstaklega um Landspítalann, af því að tilhneigingin er alltaf að tala dálítið mikið um Landspítalann, sem er sannarlega stærsta stofnunin okkar á þessu sviði, en það gleymist alltaf hitt, að við þurfum að horfa á stofnanirnar okkar vinna miklu meira saman. Ég held að í því sé fólginn talsvert mikill ávinningur af því að á árunum 2016–2020 fjölgaði ársverkum um rétt um 500 á Landspítalanum, 13% fjölgun, og ef við tökum Covid árið 2020 undan eru það 400 ársverk. (Forseti hringir.) En nýtingin á fjármagninu dregst samt saman um 7% þannig að það er einhvers staðar (Forseti hringir.) eitthvað sem við þurfum að gera betur. Ég held að við þurfum að láta vera miklu meira flæði, þessi síló sem við erum alltaf að glíma við innan stofnana, (Forseti hringir.) innan stjórnkerfisins, þannig að stofnanirnar okkar geri kannski það sem þær eiga að gera, að fólk þurfi ekki að fara á bráðamóttöku þegar það getur farið og fengið, eða ætti a.m.k. að geta fengið, þjónustu annars staðar.

(Forseti (ÁLÞ): Forseti vill minna þingmenn á að virða tímamörk.)