Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[16:09]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristrún Frostadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér þótti mjög áhugavert að heyra með tekjurnar, að það væri vilji hjá meiri hluta fjárlaganefndar að fara í frekari tekjuaukningu, vegna þess að það liggur fyrir að sú hlið er brotin. En við sjáum til hvernig þetta þróast.

Mig langaði til að nýta tækifærið örstutt hér í lokin og vekja athygli á öðrum þætti sem er talað um í meiri hlutanum sem skiptir máli og það er jöfnun dreifikostnaðar. Talað er um að verulegum fjármunum sé oft varið í það en það náist sjaldan markmið. Ég vek athygli á því í því samhengi að það eru markmið í fjármálaáætlun um að jöfnunarhlutfallið fari úr 78% í 85% 2023 og 95% 2027. En við vitum, hv. fjárlaganefnd veit það eftir svar sem hún fékk frá ráðuneytinu, að það er ekki nægt fjármagn í verkefnið. Þetta mun því ekki breytast á tímabilinu. Ástæðan fyrir því að þessi markmiðið nást ekki er vegna þess að fjármagnið er ekki til staðar. Hver er afstaða hv. formanns fjárlaganefndar til þessarar stöðu og af hverju eru engar breytingartillögur í áliti meiri hlutans í ljósi þess að þau eru augljóslega ekki sátt við þessa þróun?