Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[16:23]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir andsvarið og vona að það verði komið á hreint, líka í sambandi við þessa hjúkrunar- og endurhæfingu, vegna þess að nú er t.d. ósamið við sjúkraþjálfara. Þar eru gífurlegir fjármunir undir. Það er auðvitað mjög blóðugt að fólk þurfi að borga 1.500 kr. sem á kannski eftir að hækka eftir hvert einasta skipti og ég veit að fólk hefur ekki efni á þessu. Það eru furðulegir hlutir sem virðast einhvern veginn vera látnir danka sem valda tjóni. Það tjón hverfur ekki. Það verður bara verra þegar fram í sækir. Þetta er eitthvað sem við verðum að taka á. Og síðan hitt að auðvitað skiptir rosalega miklu máli, sérstaklega núna í þessum erfiðu aðstæðum sem eru búnar að vera út af íbúðahækkunum og bensínhækkunum og alls konar, að það sé séð til þess að fólk á launum frá almannatryggingum fái nú virkilega réttar hækkanir en sitji ekki eftir enn eina ferðina.