Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[16:24]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek alveg undir að það er mjög bagalegt að það skuli ekki vera búið að semja við sjúkraþjálfara og aðra sem þar eru undir, sem enn er ósamið við og fólk er þar af leiðandi að borga samkvæmt gjaldskrá sem er talsvert hærri. Það kemur öllum illa, held ég, nema kannski allra efnamesta fólkinu, ef það þarf á slíkri þjónustu að halda. Það er svo sem ekkert annað sem maður getur gert en að brýna báða aðila til að leita leiða við samninga, því að það er jú verið að semja og væntanlega þurfa báðir aðilar að gefa eitthvað eftir. Það er verið að gera ákveðnar kröfur. Það er verið að leggja ákveðið magn undir, eins og við þekkjum, þ.e. hversu marga tíma o.s.frv. á að semja um. En eins og við höfum heyrt í umræðunni er ekki bara hægt að ganga að samningum án þess að setja einhver viðmið og það hafa Sjúkratryggingar gert. En ég tek undir að þetta er rosalega mikilvægt af því að þetta er sá hópur sem þarf allra mest á því að halda að komast í þjálfun., þ.e. öryrkjar og fólk í endurhæfingu. Ég tek undir það og ítreka það og sendi skilaboð út í kosmósið til Sjúkratrygginga um að reyna að semja.