Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[16:25]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Forseti. Ég vil byrja á því að spyrja í nefndaráliti mínu: Hvað í fjandanum er fjármálaáætlun? Mér finnst það rosalega mikilvæg spurning, sérstaklega með þessu orðalagi, af því að það sem fjármálaáætlunin er er ekki það sem við fáum í hendurnar. Hvað er hún þá? Af hverju er svona mikill munur á því sem er sagt í lögum að fjármálaáætlun sé og því sem við fáum í hendurnar frá ríkisstjórninni? Ef það er munur þar á, af hverju? Hvaðan kom það? Hverjum datt það í hug ef ekki er verið að fara eftir lögum? Í lögunum um fjármálaáætlun er fjallað um ýmislegt, eins og t.d. að áætlun ríkisstjórnar er lögð fram á Alþingi og felur í sér greiningu á stöðu efnahagsmála, nánari sundurliðun á markmiðum fjármálastefnu og umfjöllun um hvernig markmiðum áætlunarinnar verði náð.

Flest af þessu, fyrir utan síðasta atriðið sem er þarna í plagginu sem við erum með, á að vera umfjöllun um efnahagsþróun undanfarin þrjú ár, sem er miklu minni umfjöllun en verið hefur. Það hefur dálítið fjarað út. Það vantar samanburðardálka og eitthvað svona skemmtilegt, af því, held ég, að það kom í ljós að tölurnar, fortíðartölurnar, breyttust. Það er dálítið skrýtið hvernig það gat gerst að hlutfall t.d. opinberrar fjárfestingar varð allt í einu miklu meira eða miklu minna. Ég er með umfjöllun um það hérna einhvers staðar í álitinu. Það á að vera markmið um afkomu og efnahag næstu fimm ára. Þar á að fjalla um þróun skatta og aðra tekjuöflun, þróun gjalda og tekna og ýmislegt svoleiðis. Í heildina litið, bara kannski á mannamáli, þá er þetta einhvern veginn svona, að stjórnvöld eiga að segja okkur hversu mikið af lánum þau ætla að taka eða borga, hversu mikið þau ætla að byggja eða hversu mikinn pening þau ætla að búa til. Stjórnvöld þurfa að útskýra fyrir okkur hvernig þau ætla að láta allt ganga upp, að spítalar, skólar og allt sem við viljum að stjórnvöld geri, sé til staðar. Það er ekki nóg bara að stjórnvöld segi okkur, þau verða að sýna okkur það, af hverju þeirra lausn á því hvernig á að reka spítala, skóla, byggja vegi, sinna félagsþjónustu og velferðarþjónustu, á þessum málefnasviðum, er besta lausnin. Ástæðan fyrir því að það þarf að útskýra hvað fjármálaáætlun er er sú að fjármálaáætlun sem stjórnvöld láta þingið afgreiða útskýrir þetta bara ekki neitt, útskýrir ekki hvernig dæmið gengur upp. Ég skil ekki hvernig efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar í heild sinni, eins og hún er sett hér fram, getur verið í lagi eftir fimm ár því að við glímum við undirliggjandi halla og ýmislegt svoleiðis. Það er svo margt hérna sem er mjög ónákvæmt. Ég fjalla hér t.d. örlítið um þjóðhagsspár og sýni muninn á því hvernig þjóðhagsspár þróast á milli ára. Það er spá um árið 2023 sem hefur birst í þjóðhagsspá t.d. 2019, 2020, 2021, 2022, í fjármálaáætlunum, og tölurnar þar flakka fram og til baka, alveg fram og til baka, sem er kannski alveg eðlilegt því að jú, auðvitað eru þjóðhagsspár ónákvæmar því að heimurinn er síbreytilegur en þó að þær séu ónákvæmar þýðir það ekki að þær séu gagnslausar. Það væri t.d. gagnslausara að búa til fjármálaáætlun til næstu ára út frá stjörnuspeki fjármálaráðherra eða með því að kasta kjúklingabeinum á skinn. En þrátt fyrir að spár til framtíðar séu ónákvæmar þá viljum við samt gera áætlanir byggðar á þeim spám því að áætlanir byggðar á einhverju öðru væru alltaf verri, nema kannski fyrir einhverja algjöra heppni. En það skiptir auðvitað máli hvernig við gerum slíkar áætlanir.

Spurningin núna er kannski: Hvernig var þessi fjármálaáætlun gerð? Þá er rosalega gaman að skoða markmiðin og mælikvarðana sem eru þar. Ef við ætlum að byggja áætlanir á gögnum þá heyrist oft að það sé svo erfitt einhvern veginn, það sé svo mikil óvissa. Við séum með svo léleg gögn, alls konar afsakanir, og eins og staðan er núna þá eru í rauninni ekki gerðar neinar áætlanir fyrir fram. Fjármálaáætlun er í rauninni bara framreikningur til næstu ára út frá þeirri stöðu sem var áður: Við rákum ríkissjóð og stofnanirnar o.s.frv. á einhvern hátt í fyrra og þá ætlum við bara að gera það eins með smá uppreikningi á launa- og verðlagsþróun og eitthvað því um líkt. Þannig gerum við áætlanir í dag. En það er bara ekki þannig sem á að gera áætlanir samkvæmt lögum um opinber fjármál, bara langt í frá, alls ekki, og er heldur ekki góð hugmynd bara yfirleitt því að — ja, það er svo margt sem ég ætla fara yfir í því efni, kem að því aðeins seinna.

Það eru einstaka tillögur um einstaka verkefni á einhverjum málefnasviðum sem ekki eru settar í neitt samhengi við fjármálastefnuna, við þá mælikvarða sem eiga að sýna árangur samkvæmt stefnu stjórnvalda. Ég dró fram nokkur dæmi hérna: Í fjármálaáætlun árið 2020 var mælikvarði um ritrýndar birtingar háskóla á þriggja ára meðaltali. Staðan árið 2018 var næstum því 2.300 greinar og átti að enda í 3.125 árið 2024. Í fjármálaáætluninni sem við fjöllum um núna er fjöldi ritrýndra greina árið 2021 1.460. Allt í lagi. Kannski eru einhver Covid-áhrif eða eitthvað því um líkt? Nei, heyrðu, viðmiðið árið 2027 eru 1.600 greinar. Covid-áhrifin eru löngu búin þá. Þetta er um 700 greinum færra en árið 2018. Hvað kom fyrir? Hvað gerðist?

Það er svo margt annað hérna líka. Hlutfall nemenda sem ljúka bakkalárnámi á þremur árum. Staðan árið 2017 var 66,6%. Staðan 2021 var 28% — 28%. Meira en helmingsfall þarna á. Þetta er ekki í framhaldsskólanum sem var styttur. Þetta er í háskólanum. Ég skil ekki hvernig viðmiðið 2024 er 70%, hlutfall þeirra nemenda sem ætla að ljúka bakkalárnámi á þremur árum, viðmiðið árið 2027 er 35%, nákvæmlega helmingi lægra. Þetta er eiginlega stórkostlegt.

Og svo er uppáhaldið mitt hérna, það á að stuðla að sjálfbærri þróun byggða og skoða framfærsluhlutfall. Viðmiðið er að framfærsluhlutfall lækki ekki. Ef við skýrum aðeins hvað framfærsluhlutfall er þá er það í rauninni fjöldi sem er á framfærslu, þá annaðhvort börn eða fólk sem er ekki lengur á vinnualdri. Hlutfallið er sem sagt þetta: Fólk sem er á framfærslu deilt með fjölda fólks á vinnualdri. Þegar fjármálaáætlun 2020 er skoðuð eru þar ýmsar skemmtilegar tölur: Höfuðborgarsvæðið er með 50% framfærsluhlutfall — 50%. Áhugavert. Börn og eldra fólk er helmingur, jafn margt og fólk á vinnualdri. En í fjármálaáætlun 2023 er staðan allt í einu orðin 63,4%. Hvað gerðist á þremur árum til að fjölga eða fækka fólki á framfærslu eða fjölda á vinnualdri svona rosalega mikið? Það er engin skýring á því nema sú að væntanlega eru tölurnar í fjármálaáætlun 2020 rangar. Ég rek það aðeins hérna í töflu og með smá útreikningum miðað við mannfjöldatölur Hagstofunnar. Við erum að glíma við rangar tölur þrátt fyrir að þetta séu bara mannfjöldatölur Hagstofunnar sem eru þarna undir og er ekkert rosalega flókið að reikna út, það tekur bara kannski smá tíma.

Vandinn hins vegar við t.d. að nota þennan mælikvarða sem einhvers konar markmið um að stuðla að sjálfbærri þróun byggða er að við erum með öldrun þjóðar í höndunum. Við vitum að það er að fara að gerast. Við vitum að við erum með unga þjóð að meðaltali og við vitum það að aldur fólks á milli kynslóða er að fara að jafnast. Það er óhjákvæmilegt að framfærsluhlutfall hækki, eins og markmiðið er að hlutfallið hækki ekki en það er óhjákvæmilegt að það gerist. Það eru í rauninni bara þrjár aðferðir til að koma í veg fyrir að það gerist. Það er það sem er kallað „Logan's Run“-stefnan, ef fólk hefur séð þá bíómynd. Hún snerist um það að fólk fær bara að lifa upp að ákveðnum aldri, en það er augljóslega aldrei að fara að gerast að sú stefna verði tekin upp. Aðferð nr. 2 er að fólk fari bara að stunda óvarða svefnherbergisleikfimi meira, en þá fjölgar börnum náttúrlega, sem fjölgar fólki á framfærslualdri tímabundið, í 20 ár, áður en það lagast. En þá þarf að viðhalda því og það verður ósjálfbær fólksfjölgun til lengri framtíðar af því að við þurfum alltaf stærri og stærri næstu kynslóð til að sjá um framfærslu fyrri kynslóða. Þriðja aðferðin er að setja upp innflytjendastefnu fyrir fólk á vinnualdri, sem er í rauninni bara tilfærsla á vandanum á milli landa en gæti virkað á einhvern hátt þar sem er atvinnuleysi eða eitthvað slíkt. En í raun og veru er enginn þessara valkosta vænlegur möguleiki upp á sjálfbærni að gera. Við verðum að horfast í augu við það að framfærsluhlutfallið í náttúrulegu jafnvægi þar sem ekki er undirliggjandi fólksfjölgun, hvað þá fólksfækkun — í rauninni stefnir fjöldi fólks á jörðinni í að verða stöðugur eftir ekkert svo rosalega mörg ár. Við verðum að hafa velferðarkerfi og fjármál hins opinbera og þessi stuðningskerfi okkar verða miðað við þann raunveruleika, ekki að við þurfum stöðuga fólksfjölgun til þess að viðhalda þeim kerfum, það gengur bara ekki upp. Það vantar algjörlega þessa sýn á það hvernig allt þetta fúnkerar hjá okkur. Þannig að svarið við spurningunni: Hvernig gerum við áætlanir? er rosalega einfalt: Kurteisa útgáfan af því er að áætlanir eru ekki byggðar á gögnum eða eru mælikvarðarnir tengdir við stefnu stjórnvalda á neinn hátt.

En hvernig eigum við þá að gera áætlanir? Það væri kannski meira viðeigandi að spyrja að því. Miðað við þessa og fyrri fjármálaáætlanir sem hafa komið frá stjórnvöldum þá er bara ágætt að spyrja hvort slíkt sé bara tímaeyðsla eins og núverandi fjármálaáætlun er. Það sorglega við þá staðreynd er að það er nefnilega fullt af fólki í stjórnsýslunni að eyða tíma í þetta verkefni án þess að af því verði af því nokkurt gagn í rauninni. Þarna er ég að námunda að næstu heild. Við myndum auðvitað krefjast þess, lágmarkið hlýtur að vera að sá tími sem við notum í þetta verði til einhvers gagns, í alvöru.

Lög um opinber fjármál eru mjög skýr um hvað fjármálaáætlun á að innihalda og strangt til tekið er verið að uppfylla flesta liði 5. gr. laga um opinber fjármál. Allt í lagi með það. Fjármálaáætlunin er byggð á fjármálastefnu og fjármálaáætlunin fjallar um efnahagsþróun. Það er greint frá afkomu og efnahag hins opinbera í heild, þróun gjalda og tekna og ýmislegt sem tékkar í boxin sem talin eru upp í lögunum. En efnislega hins vegar þá vantar mikið upp á. Umsagnaraðilar fjölluðu sérstaklega mikið um þetta atriði í umsögnum sínum fyrir fjárlaganefnd. Það vantar mikið upp á að grunngildum laga um opinber fjármál sé framfylgt, sérstaklega hvað varðar gagnsæi, eða eins og fjármálaráð orðar það, með leyfi forseta: „Fjármálaráð telur að grunngildamiðuð setning stefnumiða og áætlanagerð hafi ekki heppnast nægilega á gildistíma laganna um opinber fjármál.“

Þetta er bara kurteislega orðað þarna, mjög kurteislega orðað. Út frá reynslu minni af svona fólki sem sinnir mjög faglega sinni vinnu þá er þetta rosalega þungort, þegar maður les á milli línanna.

Uppskriftina að því hvernig við eigum að gera áætlanir er að finna í lögum um opinber fjármál en það er einfaldlega ekki farið eftir þeirri uppskrift. Hvers vegna fáum við engin svör þegar við spyrjum? Það eru samt nokkur atriði sem mætti gera skýrari, sérstaklega með tilliti til fjárheimildaramma lögbundinna verkefna og stefnu stjórnvalda. Umfjöllun í fjármálastefnu, fjármálaáætlun og fjárlögum þarf að gera betur grein fyrir stöðu lögbundinna verkefna annars vegar og stefnu stjórnvalda hins vegar. Þetta skiptir rosalega miklu máli.

Í umfjöllun nefndarinnar kom fram sú ábending að stjórnvöld ættu auðvitað ekki að elta hagsveifluna. Ókei. Þessir sjálfvirku sveiflujafnarar. Þegar það er uppsveifla þá aukast tekjur ríkisins og útgjöld minnka, minna atvinnuleysi og þess háttar, og þá er hægt að leggja til hliðar fyrir mögru árin og þegar er niðursveifla þá aukast útgjöld og tekjur minnka á sama hátt. Jafnvægi helst til lengri tíma og meðaltal af þessu tvennu er þá jafnvægið sem slíkt. Stóra efnahagslega spurningin er þá hvert meðaltalið er og hvernig stilla á tekjur og útgjöld ríkissjóðs til þess að viðhalda því jafnvægi. Það er vettvangur stjórnmálanna og endurspeglast aðallega í lögbundnum verkefnum stjórnvalda, því að það er langstærsti útgjaldaliðurinn.

En ég var með fyrirspurnir hérna, góður listi, 109 fyrirspurnir til allra stofnana og ráðuneyta um lögbundin verkefni þeirra og heildarsvarið við þeirri fyrirspurn, þegar ég spurði: Hver eru lögbundin verkefni ykkar og hvað kostar hvert verkefni fyrir sig? var að þau höfðu bara ekki hugmynd um það, ekki minnstu hugmynd um hvað hvert verkefni kostaði, sem er bara mjög ámælisvert. Hvernig eigum við að vita hvort við séum að fjármagna þessi mismunandi verkefni sem við setjum með lögum hérna á Alþingi ef stjórnvöld vita ekki einu sinni hvað þau kosta?

Þegar frumvarp kemur fram á Alþingi er alltaf fjallað um mat á áhrifum á ríkissjóð, þá er fjallað um kostnað þess að innleiða hin og þessi lög eða þessar lagabreytingar. Þetta ætti auðvitað að vera til fyrir lagabálkana eins og þeir leggja sig inn í hverja stofnun, inn í hvert ráðuneyti af því að þetta er stærsti útgjaldaliðurinn sem við erum að fjalla um, bara þessi lögbundnu verkefni sem fólk í þessum þingsal er búið að setja í áranna rás og við þurfum að meta á hverju ári hvernig við ætlum að fjármagna það að viðhalda þessum verkefnum. Ef við vitum ekki hvað þau kosta getum við það ekki. Við getum ekki sagt bara: Gerum eins og í fyrra, plús verðlagsbreytingar og launaþróun og eitthvað svoleiðis. Það er ekki hægt ef við ætlum að reyna að gera betur á hverju ári. Það er rosalega mikilvægt.

Þar kemur stefna stjórnvalda inn. Það er stefna stjórnvalda að hafa áhrif á lögbundin verkefni, eins og er sagt, það á að gera grein fyrir lagabreytingum, áhrifum þeirra. Það skiptir miklu máli að koma með lagabreytingu um hjúkrunarheimili þannig að þau fúnkeri einhvern veginn öðruvísi og þar af leiðandi verður minni kostnaður fyrir hið opinbera, en það gæti orðið meiri kostnaður einhvers staðar annars staðar af því að það geta verið aukin þjónustugjöld eða eitthvað svoleiðis. Þannig greining þarf að vera í öllu samhenginu.

Við þurfum að gera eitthvað virkilega drastískt hvað varðar framsetningu fjárlaga og fjármálaáætlunar til að gera þetta aðgengilegt, bæði fyrir þingmönnum sem eru að reyna að skilja hvernig verið er að sinna þeim verkefnum sem við höfum sett hérna með lögum. Ég nefni nýlegt dæmi sem var tekið hér í ræðu formanns fjárlaganefndar varðandi NPA-samningana. Það vantar pening þar, í þau réttindi sem fólk hefur varðandi niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu og ýmislegt annað. Við vitum um skortinn í heilbrigðiskerfinu en það er líka margt annað þar sem við vitum ekki um.

Ég fer aðeins yfir hver stefna stjórnvalda er. Ég reyni að draga út úr fjármálaáætluninni fjármál ríkissjóðs, tekjur, útgjöld. Þar er mjög margt, eiginlega allt sem var þegar á síðasta kjörtímabili og svo er einhvern veginn verið að monta sig af því aftur. Það er talað um tímabundnu framlögin sem renna sitt skeið árið 2023. Þetta eru náttúrlega ákvarðanir sem voru teknar áður. Ég veit ekki af hverju verið er að fjalla um það sérstaklega mikið í fjármálaáætlun. Þetta er ekki hluti af stefnu stjórnvalda. Stefna stjórnvalda þarf að útskýra fyrir okkur hver staðan er í verkefnum, helstu áskoranir sem við erum að glíma við og hvernig stjórnvöld ætla að koma til móts við þær og útskýra hvernig þau ætla að gera hlutina betri.

Eitt besta dæmið er þar sem verið er að fjalla um loftslagsmál. Ég spurði um það í andsvörum hérna áðan. Í stjórnarsáttmálanum er talað um að setja sjálfstætt landsmarkmið um 55% samdrátt á losun á beinni ábyrgð Íslands fyrir 2030 miðað við árið 2005. En svo koma þrjár aðrar setningar í fjármálaáætlun sem eru á skjön við þetta á einn eða annan hátt. Það er líka talað um eftirfarandi, með leyfi forseta: „Ísland tekur þátt í markmiði ESB“ — tekur þátt í markmiði ESB, einmitt — „um að samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda verði 55% árið 2030 miðað við losun á árinu 1990.“

Þarna eru stjórnvöld, sem eru búin að setja sér markmið um 55% samdrátt miðað við 2005, líka að segja að þau ætli að vera með í einhverju markmiði um 55% miðað við 1990. Síðan er annað, fjallað er um að markmiðið var áður 40%, bein ábyrgð Íslands var 29% hlutdeild af sameiginlegu markmiði Evrópusambandsins, Íslands og Noregs, og verið er að herða það upp í 55%. Það er losun sem fellur utan ETS-kerfisins. En sagt er: „Ekki hefur verið staðfest hvert markmið á beina ábyrgð Íslands verður innan hins nýja 55% heildarmarkmiðs.“

En stjórnvöld eru samt að setja sér sjálfstætt markmið og þau eru að fjalla um hversu mikil hlutdeild Íslands verður innan 55% — það skiptir ekki máli. Ísland er búið að setja sér sjálfstætt markmið sem er síðan fjallað aftur um hérna og þá er það það sem fellur utan EST-kerfisins. Þannig að maður veit ekki hvort verið er að tala um samkomulagið, sem er með ESB og Noregi þar sem hlutdeild Íslands er minni en 55%, hún var 40% í samstarfi við hin löndin. Hlutur Íslands innan þess var 29% , við erum með áætlun um það hvernig á að ná því. Það er ekki allt alveg fullútskýrt, hvort við náum 29%. Nýlega er búið að hækka þetta upp í 55% en það er ekki búið að breyta neinum aðgerðaáætlunum til að ná þessum auka 15%, hvað þá frá 29% upp í 55%. Ekkert. Og það er ekkert í fjármálaáætlun um það hvað það kostar, ekki neitt. Það er stórkostlega merkilegt að sjá þessi misvísandi ártöl og tölur innan fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar sjálfrar. Það eru þau sem eru að setja sér þessi markmið. Þau ráða því en geta ekki einu sinni sett það fram á neinn aðgengilegan hátt sem er skiljanlegur fyrir lesendur. Alveg stórkostlega skrýtið.

Ef fjárveitingavaldið, sem liggur hjá Alþingi, á raunverulega að geta samþykkt fjárheimildir fyrir framkvæmdarvaldið til þess að framfylgja lögbundnum verkefnum og stefnumálum ríkisstjórnarinnar hverju sinni þarf að gera breytingar frá núverandi fyrirkomulagi. Það á ekki að þurfa lagabreytingar heldur þarf einungis að framfylgja þeim lögum sem þegar eru í gildi. Sú flokkun sem fjallað er um hér ofan og í nefndarálitinu er ekki hluti af lögunum um opinber fjármál nema á óbeinan hátt. Þá er það skiptingin í lögbundnu verkefnin — stefna stjórnvalda er eitthvað sem þarf að gera samkvæmt lögum.

Umfjöllun um stefnu stjórnvalda er að vissu leyti oftúlkuð að mati 1. minni hluta í núverandi fjármálaáætlun og er nær því að vera stöðugreining á lögbundnum verkefnum, en núverandi fyrirkomulag er tilraun til þess að setja upp markmið og mælikvarða fyrir stefnu stjórnvalda sem mistekst herfilega. Það eru settir upp einhverjir tiltölulega handahófskenndir mælikvarðar fyrir hvert málefnasvið, eins og t.d. framfærsluhlutfallið, svo kemur stefna stjórnvalda sem fjallar um eitthvað allt annað og þá reyna menn einhvern veginn reyna að troða þessu tvennu saman án þess að það sé nokkur samsvörun þarna á milli þess hvað stjórnvöld ætla að gera og þess hvað mælikvarðinn er að segja innan málefnasviðsins. Þetta gengur ekki, þetta nær engum árangri svona.

Þannig að mínu mati þarf að gera greinarmun á umfjöllun um stefnu stjórnvalda annars vegar — það er bara algjört lykilatriði og það er ekkert rosalega stór kafli í rauninni því að fjármagn sem stjórnvöld hafa til að sinna sérstaklega stefnu stjórnvalda er í rauninni frekar lítið. Það vantar miklu skýrari umfjöllun um hvernig þau virka. Og síðan er það umfjöllun um lögbundin verkefni, sem ætti að vera á heildstæðan hátt í fjárlagafrumvarpi en ekki endilega fjármálaáætlun, á meðan umfjöllun um stefnu stjórnvalda og hver áhrif hennar eru á t.d. stöðu lögbundinna verkefna eru í fjármálaáætlun. Þá veistu alltaf hver staða lögbundinna verkefna er miðað við fjárlög hvers árs. Svo ertu að fjalla um stefnu stjórnvalda í fjármálaáætlun, sem gerir fjármálaáætlun miklu minni að umsvifum, um það hvernig hún ætlar áhrif á stöðu rammans eins og hann er, stöðu lögbundinna verkefna.

Í stuttu máli þá vantar verulega mikið upp á framkvæmd laga um opinber fjármál. Sumt af því sem lög um opinber fjármál fjalla um vantar beinlínis og annað er ónákvæmt. Framkvæmdin ætti að vera nokkurn veginn á þá leið að stjórnvöld útskýra efnahagslegt jafnvægi til lengri tíma og hvernig tekjur og gjöld viðhalda því jafnvægi með tilliti til lögbundinna verkefna og stefnu stjórnvalda. Hér ætti að miða við langtímahagvöxt í stað þess að fylgja efnahagssveiflunni og þeirri skammtímasýn til næsta árs sem þjóðhagsspá sýnir yfirleitt bara.

Þá þarf að setja upp skýra mælikvarða fyrir öll lögbundin verkefni stjórnvalda. Þeim þarf að fylgja mat á stöðu þeirra og núverandi kostnaði og það á að fylgja lögum um opinber fjármál varðandi stefnu stjórnvalda. Í stefnu stjórnvalda er útskýrt hvernig stjórnvöld ætla að hafa áhrif á stöðu einstakra mála, stærri og smærri. Til dæmis hvaða áhrif stjórnvöld ætla að hafa á stöðu mála á húsnæðismarkaði (opinber fjárfesting), eða þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir og fleira því um líkt

Svo er stóra spurningin: Hvernig á að borga fyrir öll þessi lögbundnu verkefni? Svarið við því eru skattar. Samkvæmt einhverjum er besta leiðin til þess að kenna börnum hvað skattar eru að borða helminginn af ísnum þeirra. Það útskýrir einnig ágætlega af hverju skattar hafa oft verið orsök uppreisna og borgarastyrjalda. Á sama tíma þarf samt skatta til þess að reka sameiginleg, samfélagsleg verkefni. Hvaða verkefni það eiga að vera hefur fólk mismunandi skoðanir um en ef við eigum að læra eitthvað meira af sögunni en að borða ekki helminginn af ís barnanna þá er það góð hugmynd að ríkið sinni ákveðnum verkefnum í þágu allra, eins og til dæmis rekstri dómstóla. Það er eitt af því sem allir eru tiltölulega sammála um.

En alla vega, skattapólitíkin fyrir þetta kjörtímabil er mjög undarleg. Eins og fram kom í nefndaráliti mínu við fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar þá er í raun eina haldbæra breytingin í stefnu stjórnvalda í skattamálum að breyta skattlagningu á bifreiðar. Það má alveg flokka þá breytingu sem „nauðsynlega“ ef horft er til þess að fjármögnun fyrir uppbyggingu og viðhald samgöngukerfisins er í gegnum skattlagningu á bifreiðar, sem hefur aðallega verið gert með olíugjöldum, er að úreldast vegna orkuskipta í samgöngum. En að það sé engin önnur stefna í skattamálum er undarlegt, sérstaklega miðað við þær aðstæður að undirliggjandi rekstur ríkisins er í mínus. Það þýðir að annaðhvort verður að auka tekjurnar eða skera niður rekstur. Samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar á að reyna að auka þjónustuna og lækka skatta. Það sér auðvitað hver og einn að þetta eru orðin tóm, það gengur ekki upp.

Og nú þegar verðbólgan fer allt í einu á fleygiferð þá grípa stjórnvöld inn í með nýjum áherslum í skattamálum. Lausn ríkisstjórnarinnar er m.a. að hækka krónutölugjöld, sem er metið á 0,2 aukaverðbólgu — það er sem sagt verið að bregðast við hækkandi verðbólgu með aðgerðum sem hækka verðbólgu — og hækka verð á áfengi í flugstöðinni. Stuðningurinn við tekjulægri heimili er tiltekinn þarna en það er þegar búið að gera það og verið að monta sig af einhverju sem er búið að gera, mjög klassískt. Svo segjast stjórnvöld vera að minnka fjárfestingar sem eru ekkert nema raunleiðrétting. Þetta er fjármagn sem hefur ekki náðist að fjárfesta fyrir, þannig að þetta er engin aðgerð nema að mínusa út það sem hefði hvort eð er mínusast út. Sagt er að það verði 27 milljarða aðgerðir á næsta ári, þegar þær hefðu sjálfkrafa verið alla vega 10 milljarðar þótt ríkisstjórnin hefði ekki gert neitt, bara út af fjárfestingunum.

Ég er oft gagnrýndur fyrir að fjalla tiltölulega lítið um pólitík og meira en formið en mér er slétt sama um það af því að gagnrýni um formið skiptir máli, sérstaklega þegar það er ekki verið að fylgja því. Á móti gagnrýni ég stjórnvöld fyrir fálmkennda efnahagsstefnu og ómarkvissa áætlanagerð. Sú fjármálaáætlun sem við fjöllum um hérna er í besta falli efnahagslega óábyrg. Það er algjör skortur á því hvernig á að koma til móts við helstu áskoranir í íslensku samfélagi; húsnæðisvandann, heilbrigðiskerfið, framtíð menntakerfisins, sameiginlegar auðlindir, loftslagsmál, almannatryggingar. Fjármálaáætlun fjallar svo sem lauslega um nokkrar af þessum áskorunum en hvergi á heildstæðan og sannfærandi hátt út frá sjónarhóli þingsins og þjóðarinnar þannig að það sé skiljanlegt hvernig þessar áskoranir lagast á næstu árum. Þetta er algjört lykilatriði, að stjórnvöld útskýri fyrir okkur hver staðan er: Af hverju eru þau vandamál, sem þið eruð að glíma við í ykkar stefnu, yfirleitt vandamál? Hvernig ætlið þið að gera þetta betra? Ekki segja bara: Við ætlum að efla eitthvað hingað og þangað. Við ætlum í alvörunni að byggja þessar 4.000 íbúðir á ári sem þarf til þess að ná jafnvægi á húsnæðismarkaðnum.

Það þarf að skrifa þau mjög skýrt og greinilega þegar áskorunin er svo einföld, það vantar algerlega, þannig að vinsamlegast gerið betur.