Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[16:56]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ítarlega og góða ræðu. Mig langaði svona aðeins sem nýgræðingur í fjárlaganefnd — og nú veit ég að hv. þingmaður er búinn að vera þar í (Gripið fram í.)— var allt síðasta kjörtímabil og (BLG: Og þarsíðasta.) — og þarsíðasta líka, það var að vísu mjög stutt. Það hefur verið fróðlegt að starfa með hv. þingmanni í fjárlaganefnd og einnig að fá annan vinkil á umræðuna, ef maður getur orðað það þannig. Það hefur verið fróðlegt fyrir okkur sem erum að stíga okkar fyrstu skref í fjárlaganefndinni að heyra ofan í það hvernig menn sjá hlutina fyrir sér. Nú sjá menn svo sem hlutina ekki alltaf með sömu augum í því og því langar mig að velta því upp við hv. þingmann varðandi fjármálastefnuna, sem fjármálaáætlunin tekur síðan væntanlega mið af eða öfugt, hvort sú nálgun sem við erum að fjalla um núna, þ.e. þessi fjármálaáætlun til ársins 2027, sé ekki svona nokkurn veginn í takt við þá stefnu sem menn eru að vinna eftir.

Við höfum verið að fjalla um, og það hefur komið frá stjórnvöldum, að við þurfum aðeins að gæta hófs og aðeins að stíga á hemilinn eftir það sem á undan er gengið. Því langar mig að fá sýn hv. þingmanns á það varðandi stefnuna og fjármálaáætlunina.