Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[16:58]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Já, þetta er mjög góð spurning. Ég fjallaði dálítið í nefndaráliti mínu um fjármálastefnuna og hvað fjármálastefnan ætti að gera. Hún á að fjalla um þjóðhagsstærðirnar, þróun þeirra, bara svona eins og gengur og gerist að jafnaði miðað við meðalhagvöxt og ýmislegt svoleiðis, en líka miðað við áætlanir stjórnvalda um t.d. opinberar fjárfestingar og ýmislegt slíkt. Það er grunnurinn, þjóðhagsspáin eins og hún er þar.

Svo kemur stefna stjórnvalda í fjármálastefnunni. Hvernig á að hafa áhrif á þessar þjóðhagsstærðir? Það vantar algerlega. Þannig að ég veit í raun og veru ekki hvernig stefnan mun ná einhvers konar efnahagsstöðugleika af því að hún fjallar ekki um það. Hún fjallar um hlutföll af vergri landsframleiðslu og að í stóru tölunum, ef þetta gengur eftir, þá er það innan hinna og þessara marka. En þar er ekkert fjallað um mögulegar breytingar á tekjum og gjöldum til að hnika til rammanum innan þeirra marka, þ.e. það er hægt að auka tekjur til að ná betra aðhaldi, alveg eins og það er hægt að minnka útgjöld til að ná betra aðhaldi. En það er engin umfjöllun um það hvar t.d. tekjur eru að safnast upp á óheilbrigðan hátt vegna skekkju í efnahagskerfinu og þar af leiðandi er ekkert fjallað um það í fjármálaáætluninni hvernig á að koma því til skila að viðhalda efnahagsjafnvægi til fimm ára af því að það vantar bara. Þetta er ekkert flóknara en það. Það er ekki útskýrt og þar af leiðandi get ég ekki útskýrt það, að sjálfsögðu ekki.