Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[17:35]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Kristrún Frostadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina, fyrir að grafa aðeins dýpra inn í nefndarálitið. Þetta var auðvitað rætt á þeim forsendum í nefndinni að um þetta var samið á sínum tíma, en svo ber ríkisstjórnin því í sífellu fyrir sig að í rauninni séu það bara fjárlög sem ákveði það árlega. Staðan er sú að þessi 1 milljarður hefur ekki einu sinni staðið í 1 milljarði kr. ásamt verðbótum, sem er það sem var samið um á tímabilinu, heldur eru þetta í kringum 800–900 millj. kr. flest árin. Þess vegna er þetta búið að safnast svona hratt upp. Það var ekki minn skilningur í nefndarumræðunni að það stæði endilega til að gera þetta upp. Ekkert samkomulag liggur fyrir um slíkt en það er augljóst mál þegar maður les minnisblað frá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að umrædd sveitarfélög hafi í staðinn þurft að setja umtalsverða fjármuni í að koma til móts við þetta gat og hafa í raun sett meira í þennan svokallaða samning en þau ætluðu sér að gera vegna þessa. Ég tel mikilvægt að staðið sé við þessa samninga vegna þess að það er auðvitað landinu öllu til bóta að við séum með virkar samgöngur á höfuðborgarsvæðinu, þrátt fyrir að sveitarfélögin gegni þar mikilvægri stöðu þá er þetta lítið brotabrot af þeim kostnaði sem sveitarfélögin taka á sig en snýr auðvitað í stóru myndinni líka að þeim stóru vinnustöðum sem margir hér nýta eins og Landspítalanum og aðkomu að þeim.

Varðandi samninginn næstu 12 ár þá er það minn skilningur að þetta séu viðræður sem eru í gangi og að ekki sé búið að ganga frá þeim samningi. Það var minn skilningur af umræðunni í nefndinni.