Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[17:42]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð nú að byrja á því að segja í framhjáhlaupi að gamni mínu, svo ég grípi inn í síðasta svar við andsvari, að ég sat minn fyrsta fund í þessum 40–50 manna hópi í morgun þar sem ríkti mjög góður andi. Þar voru allir mjög brattir og bjartsýnir og fæstir með einhverja járnkarla undir borðum. Því held ég að við eigum að bera von í brjósti varðandi þann mikla atvinnuveg sem þar er undir um að þetta beri einhvern árangur. Auðvitað er verið að leggja í þetta á nýjum forsendum. Þetta var svona í framhjáhlaupi, en mér fannst ég þurfa að segja þetta vegna þess að það komu allir bjartari út af fundinum en inn á hann. Það sagði fólk almennt, bara svo það sé sagt.

En mig langaði til að spyrja hv. þingmann, sem var að flytja ræðu sína og fullyrðir hér á bls. 13 í sínu nefndaráliti um hjúkrunarheimilin að þau hafi verið vanfjármögnuð og uppbyggingin sömuleiðis, sem skili sér í meiri þrýstingi á Landspítala. Að mínu mati var það alls ekki þannig á síðasta kjörtímabili og hefur ekki verið að hjúkrunarheimilin hafi verið vanfjármögnuð. Hins vegar, eins og við þekkjum og höfum fengið upplýsingar um í fjárlaganefnd, þá hefur bygging þeirra gengið hægar en vonir stóðu til og það er kannski eitt af því sem við erum almennt að glíma við í húsnæðismálunum. En það hefur m.a. komið fram á fundum fjárlaganefndar að fyrst og síðast sé um að ræða mönnunarvanda, m.a. hafi ekki verið hægt að manna Landakot sem var einmitt tekið sérstaklega undir til að létta á spítalanum og búa til þessi rými. Rýmin eru til staðar að einhverju leyti en ekki mannskapurinn. Sannarlega getum við gert betur í því að búa betur að fólki sem starfar í geiranum en ég er ósammála því að hjúkrunarheimilin hafi verið vanfjármögnuð á síðasta kjörtímabili og í rauninni það sem af er þessu.